150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

forvarnir og heilsuefling eldri borgara.

[15:44]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, fyrir að ljá máls á þessari sérstöku umræðu um forvarnir og lýðheilsu og um heilsueflingu eldri borgara. Það er staðreynd að öldruðum á Íslandi fer ört fjölgandi og því fyrirsjáanlegt að að óbreyttu muni útgjöld, m.a. til heilbrigðismála, aukast verulega. Árið 2047 er áætlað að 65 ára og eldri verði fleiri en þeir sem eru yngri en tvítugir og aldurspíramídinn er því að breytast mjög hratt. Það er því mikil áskorun sem ríki og sveitarfélög standa frammi fyrir á þessu sviði þar sem þessu fylgir aukin tíðni ýmissa sjúkdóma og mikil áskorun sem við stöndum frammi fyrir, auk annarra lýðfræðilegra þátta og lífsstílsþátta sem áhrif hafa á almenna heilsu og vellíðan.

Það er augljóst, og á það hefur m.a. hæstv. ráðherra bent, að þessari áskorun verður að mæta með fjölbreyttum úrræðum, m.a. með aukinni áherslu á forvarnir og heilsueflingu. Það segir einmitt í inngangi að heilbrigðisstefnu til 2030, með leyfi forseta:

„Allir landsmenn þurfa einhvern tíma á lífsleiðinni á heilbrigðisþjónustu að halda. Þarfir fólks fyrir þjónustu eru einstaklingsbundnar og breytilegar frá einum tíma til annars …“

Ef við skoðum þróun útgjalda og breytingar á aldurspíramída þjóðarinnar þar sem við lifum lengur og eldumst þá er óhjákvæmilegt að álagið á heilbrigðiskerfið mun aukast og vægi heilbrigðisútgjalda af heildarútgjöldum mun aukast frá því sem nú er. Það er nú um u.þ.b. fjórðungur af heildarútgjöldum, um 245 milljarðar á þessu ári. Við hljótum því að horfa til þess í auknum mæli að efla forvarnir og almenna heilsueflingu, ekki síst eldri borgara, en nýlegar rannsóknir benda til, m.a. rannsókn frá Bretlandi sem ég get vísað til, að fjárfesting í forvörnum skili sér fjórtánfalt. Í dag erum við að eyða í samhengi útgjalda um 2% í forvarnir og 98% í það sem stundum er kallað bara viðbrögð eða viðgerðir. Við hljótum því að horfa til þessa í auknum mæli og bæta heilsu og fyrirbyggja sjúkdóma, lífsstílssjúkdóma sem koma til vegna óheilbrigðari lífshátta og rekja má til hegðunar, aukins offituvanda, mataræðis, óæskilegra svefnvenja, ónægs svefns, skorts á hreyfingu og skipulagðari lifnaðarháttum og auðvitað aga og sjálfsábyrgð.

Þetta leiðir hugann að lýðheilsustefnu og það er á vettvangi landlæknis. Í lögum um landlækni og lýðheilsu segir, með leyfi forseta:

„Lýðheilsustarf: Felur í sér að viðhalda og bæta heilbrigði, líðan og aðstæður þjóðarinnar og þjóðfélagshópa með heilsueflingu, forvörnum og heilbrigðisþjónustu.“

Hér er um ansi vítt svið að ræða og þar með ekki einfalt að nálgast það og eins hef ég heyrt hæstv. heilbrigðisráðherra segja að þetta kalli á fjölþætta nálgun, nú síðast í sérstakri umræðu um hjúkrunarheimilin.

Margvíslegir þættir hafa áhrif á almenna heilsu og vellíðan í umhverfinu en eins vegna lífsstíls eins og ég kom inn á. Við tengjum okkur við heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun, frið og frelsi í heiminum þar sem þriðja heimsmarkmiðið er einmitt, út frá skilgreindum mælikvörðum, að stuðla að heilbrigðu líferni allt frá vöggu til grafar. Það hefur verið sýnt fram á það með rannsóknum að það er hægt að hægja á öldrunarferlinu og bæta lífsgæði eldri borgara með fjölbreyttri þjálfun og heilsueflingu. Það hefur til að mynda rannsókn dr. Janusar Guðlaugssonar, Fjölþætt heilsurækt: Leið að farsælli öldrun, leitt í ljós og staðfest. Bent hefur verið á, talandi um lýðheilsustefnuna, að heilbrigðisstefnan fjalli ekki nægilega skýrt um þær áskoranir sem fylgja öldrun þjóðarinnar. Það hefur Landssamband eldri borgara bent á í sinni umsögn við heilbrigðisstefnu og gott ef landlæknir hefur ekki staðfest það að nauðsyn sé á að uppfæra gildandi lýðheilsustefnu.

Ég skil hér eftir spurningar til grundvallar umræðunni. Í fyrsta lagi: Telur ráðherra að gildandi lýðheilsustefna frá 2016 taki nægilega vel á þeim áskorunum sem fyrirsjáanlegar eru, m.a. vegna öldrunar þjóðarinnar? Í öðru lagi: Telur ráðherra að ríki og sveitarfélög vinni nægilega markvisst (Forseti hringir.) að heilsutengdum forvörnum eldri borgara um allt land? Er unnið eftir mælanlegum markmiðum og í hverju felast þau? (Forseti hringir.) Og ég spyr út í lýðheilsumat fyrir eldri borgara. Ég kem að tveimur síðustu spurningunum í seinni ræðu.