150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

404. mál
[16:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Konum hér á landi stendur til boða að taka þátt í skipulagðri skimun fyrir krabbameini í leghálsi á þriggja ára fresti. Það þarf ekki að fjölyrða um hversu mikilvæg regluleg mæting og öflugt eftirlit er enda er það staðreynd að frá því að skimun hófst hér á landi árið 1964 hefur nýgengi krabbameins í leghálsi lækkað um 70% og dánartíðni um 90%. Skimun fyrir brjóstakrabbameini hófst svo árið 1988. Konur eru nokkuð duglegar að mæta í skimun og skilar það sér í lægri dánartíðni kvenna með brjósta- og leghálskrabbameini. Krabbameinsfélagið hefur verið með samning við Sjúkratryggingar Íslands um framkvæmd á skimun. Það hefur staðið fyrir hvatningu til kvenna til að mæta í leit og einnig hefur félagið ferðast um landið og boðið upp á leit á nokkrum stöðum í hverju heilbrigðisumdæmi hringinn í kringum landið. Þrátt fyrir þetta hefur mæting í leit ekki verið ásættanleg en það er talið að þátttaka sé viðunandi ef hún er yfir 70% og helst yfir 85, en þátttakan hefur minnkað síðustu ár og er komin rétt undir 70%.

Nú er gert ráð fyrir að skimun fyrir leghálskrabbameini færist á heilsugæslustöðvarnar og brjóstaskoðun færist frá Krabbameinsfélagi Íslands til Landspítalans og á Sjúkrahúsið á Akureyri.

Virðulegi forseti. Miklu skiptir að við þessar breytingar falli ekki niður sú reynsla og þekking sem byggst hefur upp hjá Krabbameinsfélaginu og best væri að unnið verði markvisst að því að bæta mætingu kvenna í krabbameinsleit. Nokkur óvissa hefur þó verið um hvernig staðið verði að krabbameinsleit um landið og því spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra nokkurra spurninga hvað þetta varðar.

Í fyrsta lagi: Er gert ráð fyrir að allar heilsugæslustöðvar á landinu skimi fyrir leghálskrabbameini? Ef svo er, hvaða fagaðilar munu bera ábyrgð á skimuninni? Er það heimilislæknir eða ljósmóðir eða eitthvað svoleiðis? Í öðru lagi: Eru uppi áform um að skima fyrir brjóstakrabbameini á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri? Ef svo er, hvaða rök eru fyrir því? Verður þá séð fyrir því að það verði skimað á fleiri stöðum á landinu? Í þriðja lagi er spurt: Verður skimun með öllu gjaldfrjáls? Ef ekki, með hvaða hætti verður tekið fyrir hana? Og í fjórða lagi: Er gert ráð fyrir að konur verði áfram kallaðir inn til skimunar eins og tíðkast í núverandi fyrirkomulagi?