150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

þjónusta við eldra fólk.

462. mál
[16:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmenn erum fersk úr umræðunni áðan um málefni eldra fólks og þess vegna er ágætt að halda áfram að vissu leyti að höggva í sama knérunn, þó með svolítið öðrum hætti. Núna erum við að tala um þjónustu sem er meira fyrir þá eldri íbúa þessa lands sem þurfa orðið mikla heilbrigðisþjónustu, mikinn stuðning við athafnir daglegs lífs og fleira. Ég hef oft reifað það áður að við erum föst í tilteknu fyrirkomulagi, tilteknu þjónustumódeli fyrir eldra fólk. Af því leiðir í rauninni fyrsta spurningin, þ.e. hvernig ráðherra hyggist bregðast við fyrirsjáanlegri fjölgun eldra fólks og fyrirsjáanlega aukinni þjónustuþörf. Ég kom inn á það áðan að þjónustuaukningin verður ekki línuleg en við þurfum samt að komast út úr þeim kassa að svarið sé alltaf að byggja eitt hjúkrunarheimilið í viðbót, að svarið sé alltaf að nota meiri steinsteypu þegar það er kannski ekki málið. Það væri fróðlegt að heyra svör ráðherra við því.

Þá er líka mikilvægt að reyna að átta sig á því hver kostnaðurinn kynni að verða ef við héldum okkur við sama módelið. Í þeim staðreyndum sem þar eru á bak við ætti að vera nægilega mikill fælingarmáttur til að þvinga okkur til að fara aðrar leiðir.

Mig langar líka að vita um þjónustuna á hjúkrunarheimilunum eins og hún er í dag, hvernig hæstv. ráðherra sjái þessa þjónustu í til að mynda samhengi við friðhelgi einkalífs og mannhelgi. Hvernig virðum við sjálfsákvörðunarrétt fólks þegar það er sett inn í eitthvert form þar sem það þarf nánast, eins og staðan er í dag, að vakna á tilteknum tíma, borða morgunmat á tilteknum tíma, fara í bað á tilteknum tíma og það er ekki á þeim tíma sem viðkomandi ákveður sjálfur, a.m.k. ekki í þeim mæli sem við sem yngri erum myndum vilja?

Að lokum er spurningin um sameiningar sveitarfélaga vegna þess að við vitum að sum verkefni sem við erum að velta fyrir okkur í öldrunarþjónustunni eru svo stór að lítil, óburðug sveitarfélög munu aldrei geta sinnt þeim sjálf en hins vegar mun annaðhvort samstarf sveitarfélaga í stórum stíl eða sameiningar (Forseti hringir.) vonandi geta haft áhrif í jákvæða átt. Mér þætti gaman að heyra skoðanir ráðherra á þessum spurningum.