150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

þjónusta við eldra fólk.

462. mál
[17:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Hún hefur verið skemmtileg. Eins og við komum inn á hér fyrr í dag munu sennilega forvarnir og heilbrigður lífsstíll á endanum skila okkur einna mestu í því hvernig við getum tekist á við þetta verkefni — ekki vandamál — vegna þess að auðvitað viljum við sem samfélag halda utan um allar þegnana og tryggja að allir búi við þau lífsgæði sem þeir hafa vilja og getu til. Það er fagnaðarefni að heyra hjá hæstv. ráðherra að auðvitað ætlum við ekki að eyða tæplega 90 milljörðum á ári í rekstur hjúkrunarheimila árið 2050. Það er uppörvandi að heyra að þá ætlum við ekki að vera komin á þann stað að eyða jafn miklum eða meiri fjármunum í að reka hjúkrunarheimili og við gerum í dag í að reka Landspítalann og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til samans. Það er gott að heyra. Það er einmitt miklu betra að tryggja að fólk fái stuðning við búsetu heima hjá sér með aukinni heimahjúkrun og samþætting þjónustunnar er þar algjört lykilatriði. Þess vegna er svo mikilvægt að stór og sterk og burðug sveitarfélög geti raunverulega tekið að sér verkefni eins og hæstv. ráðherra kom inn á, sérstaklega þegar kemur að þessari þjónustu. Þess vegna er mikilvægt, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að þessir samningar við sveitarfélögin haldi áfram og að það verði gert í æ ríkara mæli og tryggt þannig að fólk fái þjónustuna þangað sem það vill fá hana. Við viljum auðvitað að fyrirkomulagið sé eins og þjónustunotendurnir vilja hafa það en ekki (Forseti hringir.) eins og þjónustuveitendurnir vilja veita það.