150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

stefna í þjónustu við aldraða.

463. mál
[17:15]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Stefnan í uppbyggingu á þjónustu fyrir eldra fólk hefur, eins og hv. þm. Guðjón S. Brjánsson kom inn á áðan, einkennst af minnisvarðapólitík. Það er byggt nýtt og nýtt hjúkrunarheimili og það er einhver forgöngumaður sem stendur fyrir því. Í því sambandi ætla ég að segja að mér er til efs að einhvers staðar á landinu sé minnisvarði um duglega starfsmanninn í heimahjúkrun eða heimaþjónustu, það held ég ekki. En minnisvarðarnir um karlana sem stóðu fyrir uppbyggingu hjúkrunarheimila eru líklegast úti um allt land.

Aðeins að öðru: Það er þetta með uppbyggingu húsnæðis fyrir eldra fólk. Ég vil brýna hæstv. ráðherra sérstaklega í því að setja af stað vinnu í ráðuneytinu varðandi það að hafa samræmdar reglur um það hvað þarf að vera til staðar til þess að einhver geti selt íbúðir eða selt þjónustu sem hann kallar íbúðir fyrir aldraða eða þjónustuíbúðir fyrir aldraða. Slíkt vantar tilfinnanlega og myndi að líkindum bæta mjög úr þeirri kaos, skulum við segja, sem að vissu leyti er í þessum málaflokki.