150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

sýslumannsembætti.

289. mál
[17:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Frú forseti. Ég fagna því að geta átt orðastað við hæstv. dómsmálaráðherra um sýslumannsembættin og sérstaklega framtíð þeirra. Ég er með þrjár spurningar sem ég legg upp með. Í fyrsta lagi: Hver er framtíðarsýn ráðherra um fyrirkomulag sýslumannsembættanna? Í öðru lagi: Hvernig gengur flutningur verkefna til embættanna? Og í þriðja lagi: Sér ráðherra möguleika á samlegð milli sýslumannsembættanna og starfsemi þeirra og annarrar starfsemi ríkisins í héraði?

Fyrir nokkrum árum voru starfandi 27 sýslumannsembætti í landinu. Nú eru þau níu. Veigamestu breytingarnar undanfarin ár, fyrir utan fækkun embætta, var þegar lögreglustjórn var aðskilin frá embætti sýslumanna fyrir sex árum. Embættin í núverandi mynd sinna margvíslegum verkefnum sem flest eru þjónustutengd, svo sem sifjamálefni, sem er stór og erfiður málaflokkur, meðferð dánarbúa, leyfamálefni ýmiss konar, aðfarargerðir, nauðungarsölur, þinglýsingar og innheimta opinberra gjalda víðast hvar svo að verkefnin eru fjölmörg.

Í tengslum við fækkun embætta og fyrrnefnds aðskilnaðar milli lögreglu og sýslumanna fór fram mikil umræða um að nýta afl embættanna betur og styrkja þau sem eftir yrðu þar sem fyrir er á embættunum um allt land mikil fagleg þekking auk þekkingar á öllum staðháttum á hverju svæði. Rætt var um að nýta betur þessar starfsstöðvar. Ég verð að segja, frú forseti, að harla lítið hefur orðið úr þeirri fyrirætlan. Hvað veldur? Er ekki fullur vilji í stjórnarliðinu til að efla embættin? Það má segja að sú viðleitni gæti flokkast undir verkefnið „að minnka báknið“ vegna þess að fjöldi stofnana á vegum ríkisins sinnir alls kyns verkefnum og viðvikum um allt land og nýta mætti þessar föstu starfsstöðvar sýslumanna til að ganga í einstök verk, þau sem ekki krefjast sérstakrar fagþekkingar á viðkomandi sviði.

Þegar ég bjó í Vestmannaeyjum furðaði ég mig oft á öllum þeim fjölda opinberra stofnana sem þurfti að koma til Eyja til að sinna sínum erindum, kannski einhverjum smáviðvikum með tilheyrandi ferðakostnaði, eftirliti og alls kyns úttektum. Vinnueftirlit, heilbrigðiseftirlit, Vinnumálastofnun, Samgöngustofa og Fiskistofa og áfram mætti telja og tel ég þessar stofnanir upp af handahófi. Því má velta fyrir sér hvort ekki sé unnt að spara mikla fjármuni með því að nýta mannskapinn á sýsluskrifstofunni betur í þágu hins opinbera og þá á ég við ríkisins í heild sinni í stað þess að hver stofnun sé á ferðinni í ýmsum viðvikum, jafnvel á sama stað á sama tíma.