150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

umgengnisúrskurðir og ofbeldi gegn börnum.

355. mál
[17:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar fyrirspurnir, ef svo má segja, og ætla að vinda mér beint í svörin. Fyrst er spurt hvort það hafi áhrif í umgengnismálum ef talið er að barn hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi samkvæmt mati Barnahúss og hvort nægilega heildstætt sé tekið á slíkum málum. Það kemur ekki fram hvort átt sé við að barn hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu málsaðila í umgengnismálinu eða í umsjón málsaðila eða af völdum annarra. En ef við meðferð umgengnismála hjá sýslumanni koma fram ásakanir um einhvers konar ofbeldi gagnvart barni er brugðist við því með því að rannsaka mál. Í rannsókn umgengnismáls hjá sýslumanni getur m.a. falist að viðtöl séu tekin við börn eða foreldra. Gögn eru lögð fram af hálfu foreldra auk þess sem gagna getur verið aflað frá Barnavernd, lögreglu eða öðrum aðilum. Samkvæmt barnalögum getur sýslumaður á öllum stigum máls síðan leitað til sérfræðings í málefnum barna en sýslumaður getur falið sérfræðingi að kynna sér viðhorf barns eða foreldris og gefa skýrslu um það til sýslumanns. Þá getur sýslumaður einnig falið sérfræðingi að gefa umsögn um tiltekin álitaefni sem koma upp þegar ástæða þykir til vegna einhverra gagna sem hafa komið um mögulegt ofbeldi. Einnig getur sýslumaður ákveðið að sérfræðingur í málefnum barna sé viðstaddur umgengni eða kynni sér samskipti barns og foreldris ítarlega. Þegar rannsókn málsins hjá sýslumanni er lokið er síðan lagt mat á öll gögn og upplýsingar í máli áður en sýslumaður úrskurðar í málinu en gögn frá Barnahúsi hafa ríkt vægi þegar úrskurða á um umgengni.

Samkvæmt ákvæðum barnalaga ber sýslumanni að taka ákvörðun í máli þar sem foreldra greinir á um umgengni eftir því sem er barni fyrir bestu. Sýslumanni ber bæði að meta hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið fyrir eða verði fyrir ofbeldi og ber sérstaklega að líta til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði. Ef sýslumaður telur að umgengni barns við foreldri sé andstæð hag og þörfum þess getur hann kveðið svo á um að umgengnisréttar njóti ekki við. En samkvæmt upplýsingum frá sýslumönnum ræðst mat sýslumanns á ofbeldishættu af heildstæðu mati á öllum þeim gögnum máls sem fram koma. Ef sýslumaður telur að gögn máls bendi til að barn hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi eða barn sé í hættu á að verða fyrir slíku ofbeldi á heimili eða í umsjá umgengnisforeldris hefur það áhrif á niðurstöðu málsins. Sýslumaður getur metið það svo að ofbeldishætta sé fyrir hendi þó að umgengnisforeldri hafi ekki hlotið dóm.

Þegar spurt er um heildstætt samstarf kerfisins verður líka að líta til þeirra lagafyrirmæla sem um það gilda. Mismunandi stofnanir hafa mismunandi og afmarkað hlutverk samkvæmt lögum í þessum málum en í 17. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er mælt fyrir um samvinnu en í ákvæðinu kemur fram að félagsleg ráðgjöf taki m.a. til skilnaðarmála, þar með talið forsjár- og umgengnismála. Henni skuli ætíð beitt í eðlilegu samhengi við aðra þjónustu samkvæmt lögunum og í samvinnu við aðra þá aðila sem bjóða upp á slíka þjónustu, svo sem skóla og heilsugæslustöðvar eftir því sem það á við. Slík ráðgjöf hefur verið takmörkuð í framkvæmd en félagsmálaráðuneytið fyrirhugar í samráði við dómsmálaráðuneytið að efla slíka þjónustu á vegum félagsþjónustu sveitarfélaga.

Síðan spyr hv. þingmaður hvenær í ferli málsins sé hugað að því að kanna hvort foreldrar hafi hlotið dóm, t.d. fyrir kynferðisbrot. Umgengnismál hefjast alla jafna á því að foreldrar eru boðaðir til viðtals hjá fulltrúa sýslumanns, annaðhvort saman eða hvort í sínu lagi, þar sem fengnar eru upplýsingar um hvernig umgengni hefur almennt verið háttað, hverjar kröfur foreldra eru og röksemdir fyrir þeim ásamt því að þeim er leiðbeint um framhald máls og réttarstöðu, og geta þeir lagt fram gögn. Ef umgengnisforeldri hefur hlotið dóm fyrir kynferðisofbeldi gagnvart barni eða ef slíkt mál er til rannsóknar hjá lögreglu eða grunur eða ásakanir eru um slíkt kemur það fram í upphafi þegar vinnsla mála hefst sjá sýslumanni eða í fyrstu viðtölum. Ef hvorki koma fram ásakanir, grunsemdir né annað tilefni til að kanna hvort foreldri hafi hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað fer ekki fram rannsókn sem beinist að þeim atriðum sérstaklega. Almennt er ekki gerð krafa um það hjá sýslumönnum að aðilar leggi fram sakavottorð þegar umgengnismál eru til meðferðar hjá sýslumanni en upplýsingar geta komið fram á mismunandi stigum málsins. Komi fram upplýsingar um að foreldrar hafi hlotið dóm er metið hvers eðlis dómurinn er og hvort það hafi áhrif á málsmeðferð. Ávallt skal taka ákvörðun um umgengni í samræmi við það sem barni er fyrir bestu. Ábendingar um ofbeldi af hálfu annars foreldris skal ávallt taka alvarlega og ber sýslumanni að rannsaka málið. Slík rannsókn er ekki sakamálarannsókn líkt og hjá lögreglu heldur snýst hún um hag barnsins sem um ræðir og að leiða í ljós hvaða umgengni sé barni fyrir bestu eða eftir atvikum hvort umgengni eigi ekki að njóta við (Forseti hringir.) en eins og áður hefur komið fram getur sýslumaður á öllum stigum máls leitað liðsinnis sérfræðings í málefnum barna.

Eins og hv. þingmaður nefnir eru þetta fjölmargar spurningar og ég þarf að koma að þeirri seinustu síðar. (Forseti hringir.) Ég hef bæði fundað með fjölskyldusviði sýslumanns og Lífi án ofbeldis um þessi mál á undanförnum mánuðum.