150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

málsmeðferð hjá sýslumanni í umgengnismálum.

357. mál
[17:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Forseti. Hér er önnur fyrirspurn af þremur til hæstv. dómsmálaráðherra og ég myndi segja að vernd barna gegn ofbeldi væri yfirheiti á þessum fyrirspurnum mínum. Þegar kemur að þessari fyrirspurn langar mig að beina mjög mikilvægri spurningu til hæstv. ráðherra sem er kannski umfram þær fjórar spurningar sem hæstv. ráðherra sér á fyrirspurnablaðinu sjálfu. Hún er: Hver er afstaða ráðherra til þess að tálmun sé túlkuð sem ofbeldi gegn barni af a.m.k. tveimur sýslumannsembættum? Það hefur komið fram í umsögnum sýslumannsembætta við frumvarp hæstv. forseta og annarra um tálmun að þau líti á það sem ofbeldi, á meðan t.d. ríkissaksóknari lítur ekki á það sem ofbeldi gegn barni heldur andlega vanrækslu, sem einnig kemur fram í umsögnum við áðurgreint frumvarp. Í hvaða stöðu setur það okkur þegar kemur að því að meta ofbeldi gegn barni og hvaða ógn barni stafi af foreldri sínu ef sýslumaður lítur á tálmun sem ofbeldi til jafns við annað ofbeldi, jafnvel gegn móður eða barni, og þá meina ég líkamlegt ofbeldi? Þess vegna er fyrsta spurningin: Í hvaða tilvikum sem upp kunna að koma í umgengnismálum sendir sýslumaður tilkynningu til barnaverndarnefndar og er það alltaf tilkynnt til barnaverndarnefndar ef foreldri hefur hlotið úrskurð um að greiða dagsektir og ef svo er, hvers vegna?

Sýslumannsembættin á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum senda tilkynningu til barnaverndarnefnda ef úrskurðað er um dagsektir vegna svokallaðra tálmunarmála en þau gera það sem tilkynningu um ofbeldi gegn barni. Þess vegna spyr ég líka hvort ráðherra telji að það hafi nægilegt vægi í umgengnismálum þegar fyrir liggja lögreglutilkynningar um ofbeldi foreldris gagnvart barni eða hinu foreldrinu. Ættu slíkar tilkynningar að hafa meira vægi í slíkum málum heldur en öðrum málum?

Hvaða starfsfólk hjá sýslumannsembættunum hefur heimild til að taka viðtöl við börn og eru slík viðtöl tekin þó að barn hafi þegar farið í viðtal í Barnahúsi og fyrir liggi gögn þaðan um afstöðu barnsins?

Telur ráðherra að það gangi gegn hagsmunum barna ef engin takmörk eru á því hversu oft er hægt að óska eftir úrskurði sýslumanns um umgengni, álagningu dagsekta eða höfðun forsjársmáls? Við heyrum endurtekin dæmi þess að verið sé að höfða mál aftur og aftur og alltaf þurfi að byrja á byrjunarreit. Þyrfti þetta ekki að vera undir sama málsnúmeri ef það kemur frá sama aðilanum endurtekið? Það hefði ég haldið að væri báðum foreldrum fyrir bestu þegar verið er að tala um kærur í forsjármálum, að það sé ekki hægt að höfða ný mál endalaust. Þetta höfum við líka séð í frásögnum brotaþola, að það hafi verið mesti sársaukinn að þurfa að mæta endurtekið fyrir sýslumannsembættið til að rökstyðja hvers vegna þeir vilja ekki umgangast ofbeldisfullan föður. Ég spyr kannski sérstaklega vegna þess að dómsmálaráðuneytið, ráðuneyti hæstv. ráðherra, (Forseti hringir.) hefur sjálft komist að niðurstöðu um (Forseti hringir.) — ég verð kannski bara að koma að þessu í seinni ræðu til ráðherra þar sem ég er búin með tímann.