150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræn eignarskráning.

370. mál
[14:12]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég taldi rétt fyrst ég fékk tækifæri til að halda ræðu um frumvarp til laga um verðbréfamiðstöðvar að kveðja mér hljóðs vegna þess að það sem ég vil vekja athygli á og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson kom inn á og nefnt er í nefndaráliti stefnir efnahags- og viðskiptanefnd að því að leggja fram frumvarp eftir nokkrar vikur sem ætlað er að tryggja að hægt sé að ýta undir samkeppni milli verðbréfamiðstöðva. Það er algjör einhugur í hv. efnahags- og viðskiptanefnd um að standa þannig að verki.

Ég vonast auðvitað til þess, herra forseti, að okkur auðnist að leggja frumvarpið fram fyrir tilsettan tímafrest, 31. mars. Þó kann að vera vegna þess að þetta er ekki alveg einfalt mál að það dragist eitthvað fram yfir þann frest og þá óska ég eftir því að þingmenn horfi í gegnum fingur sér, enda erum við þannig nefnd að við erum hvers manns hugljúfi og menn hljóta að hafa það í huga, en við ætlum okkur samt að ná þessu innan tímafrestsins.

Það snýr að því að það sé alveg skýrt að hægt sé að afskrá rafbréf í einni verðbréfamiðstöð ef menn eru að færa viðkomandi bréf yfir í aðra verðbréfamiðstöð. Það er ekki verið að opna á að stjórnir geti afskráð bréf með einföldum hætti, það væri að ganga hugsanlega á réttindi eða vernd minni hluta. Það er mikilvægt að hafa það í huga.

Einnig er vert að benda á að enn fremur hefur komið upp að það kunni að vera skynsamlegt að leggja til breytingar á þeim lögum sem við erum að samþykkja hér samhliða því sem við förum inn í félagaréttinn sem tryggir að verðbréfamiðstöðvum sé ekki heimilt að setja í samninga við skráningu verðbréfa ákvæði sem koma í veg fyrir að hægt sé að færa viðkomandi verðbréf, hlutabréf eða skuldabréf í aðra verðbréfamiðstöð. Það er sem sagt einbeittur vilji og fullkomin samstaða um það í efnahags- og viðskiptanefnd að leggja fram nauðsynlegar lagabreytingar sem miða að því að ýta undir og styrkja samkeppni milli verðbréfamiðstöðva en standa um leið vörð um réttindi minni hluta og ganga ekki með neinum hætti þannig fram að minni hluti, t.d. í hlutafélagi, beri skarðan hlut frá borði.

Herra forseti. Ég taldi rétt og nauðsynlegt að skýra þetta aðeins betur þó að Ólafur Þór Gunnarsson hafi staðið sig frábærlega vel við að flytja nefndarálit nefndarinnar sem var auðvitað einhuga.