150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

viðgerðir á jarðvegsrofi vegna utanvegaaksturs utan þjóðgarða.

126. mál
[16:55]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta snýst einfaldlega um spurninguna hvort þennan sjóð þurfi. Við eigum hugsanlega að samþykkja mál sem er þess eðlis að við förum fram á að þessi sjóður sé búinn til og hann undirbúinn í ráðuneytinu. Ég nefndi sektarupphæðina sem eina af fleiri spurningum því að ég var líka að reyna að gera mér grein fyrir umfangi þessara skemmda. Ef þetta er mjög stórt mál, skemmdir miklar og víða, kann vel að vera að þennan sjóð þurfi en við erum einfaldlega hér til að meta nauðsyn þess að þetta sé gert. Þá væri ekki í sjálfu sér óeðlilegt þó að greinargerðin væri heldur ítarlegri en þarna er. Ég var ekki að fara fram á annað.

Ég get alveg lýst því yfir að ég er alls ekki á móti því að svona sjóður starfi, þvert á móti. Ég þekki hálendið vel, ber hag þess fyrir brjósti og hef séð vondar skemmdir í gegnum ævina sem voru sennilega viðgerðar með einhverju móti sem ég kann ekki að nefna. Hverjir stóðu straum af viðgerðum í t.d. Kerlingarfjöllum þar sem var ekið yfir jarðhitasvæði? Hverjir sáu um það? Komu þessir peningar frá ríkinu, komu þeir frá þeim sem þarna eru með starfsemi, kemur þetta frá hverju sveitarfélagi eða hvernig er þetta gert? Ég geri mér einfaldlega ekki grein fyrir því hvað er að baki þessari þingsályktunartillögu.

Það er ekki annað sem ég kom hér upp til að auglýsa eftir.