150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

opinberar fjárfestingar.

[11:00]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Endurskoðuð hagspá Seðlabanka Íslands og vaxtalækkun bankanna sem tilkynnt var í gær er áhyggjuefni fyrir íslenskt efnahagslíf en staðfestir um leið það sem varað hefur verið við allt frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum, þ.e. að fjárhagsáætlanir hennar byggðu á allt of bjartsýnum forsendum, að verið væri að belgja báknið allt of mikið en vanrækja opinberar fjárfestingar. Það er því fagnaðarefni að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra lýsa því yfir að nú eigi að spýta í, nú eigi loksins að ráðast í að stórauka opinberar fjárfestingar.

Hins vegar er ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra hvar hann ætli að finna svigrúm í rekstri ríkisins til aukinna fjárfestinga því að á sama tíma og efnahagsforsendur eru að versna eru tekjuforsendur ríkisins að sama skapi að versna og út frá gildandi fjármálaáætlun og fjármálastefnu þessarar ríkisstjórnar, sem hún þurfti raunar að endurskoða fyrir tæpu ári vegna versnandi efnahagsforsendna, er ekkert svigrúm til aukinna opinberra fjárfestinga.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig ætlar ríkið að ráðast í þessar nauðsynlegu opinberu fjárfestingar sem hafa verið sveltar allt of lengi? Þrátt fyrir lítils háttar vöxt í fjárfestingum á liðnum árum eru þær enn undir langtímameðaltali. Hagvöxtur sem hefur byggst á ferðamönnum er ekki sjálfbær til lengri tíma litið nema við ráðumst í þá mikilvægu uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað í vegakerfi landsins, svo dæmi sé tekið. En fyrst og fremst: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að fjármagna þær fjárfestingar sem hún boðar nú? Það er vissulega fagnaðarefni og nauðsynlegt að í þær verði ráðist.