150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

ÖSE-þingið 2019.

553. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. ÍÖSE (Gunnar Bragi Sveinsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér skýrslu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2019 og ég verð að byrja á því að þakka félögum mínum í nefndinni fyrir samstarfið, hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur og hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni, sem og ritara nefndarinnar, Bylgju Árnadóttur, sem hefur reynst alveg frábær starfsmaður og haldið vel utan um þennan hóp. Á vettvangi þings Öryggissamvinnustofnunar Evrópu á árinu 2019 bar hæst umræður um átök á ÖSE-svæðinu, loftslagsmál, spillingu og jafnrétti kynjanna. Á vetrarfundi þingsins var rætt um það hvernig ÖSE-þingið gæti stuðlað að lausn langvinnra átaka en síðustu misseri hefur náðst mikilvægur árangur í viðræðum Armena og Azera um Nagorno-Karabakh héraðið og var þeim árangri fagnað í yfirlýsingu ársfundar þingsins. Þingið samþykkti einnig aukaályktun um stöðu öryggis og mannréttinda í Abkasíu og Suður-Ossetíu í Georgíu. Átökin í Úkraínu og innlimun Krímskaga voru áberandi í umræðunni á þinginu á árinu.

Forseti þingsins, George Tsereteli, sem er Georgíumaður, varaði við auknum óstöðugleika í samskiptum Rússa og Úkraínumanna í ávarpi sínu á vetrarfundi þingsins og vísaði til átakanna í Asovshafi í lok árs 2018. En þar, eins og kannski flestir muna, tóku Rússar úkraínsk skip, héldu þeim og skipverjum föngnum í dágóðan tíma. Um þetta hefur ítarlega verið fjallað á fundum þingsins. Í árlegri yfirlýsingu sinni kallaði þingið eftir því að átakaaðilar legðu niður vopn og rússnesk stjórnvöld féllu frá innlimun Krímskaga. Auk þess samþykkti þingið aukaályktun þar sem bent var á að fyrirætlanir Rússa um að koma fyrir kjarnavopnum á Krímskaga brytu gegn alþjóðalögum og hefðu neikvæð áhrif á öryggi í Evrópu.

Á vetrarfundinum var einnig rætt töluvert um uppsögn Bandaríkjamanna á samningi um bann við meðaldrægum kjarnavopnum og fundarmenn lýstu áhyggjum af auknu óöryggi Evrópubúa þegar samningsins nyti ekki við.

Á árinu skipaði forseti ÖSE-þingsins sérstaka fulltrúa um spillingu, stafræna þróun og norðurslóðamál og á vetrarfundi þingsins í Vín var haldin sérstök umræða um baráttu gegn spillingu, peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þar var m.a. bent á áhrif spillingar á virkni lýðræðisstofnana, réttarríkisins og þjóðaröryggi. Þingið samþykkti einnig aukaályktun á ársfundinum í Lúxemborg um hlutverk þjóðþinga í að koma í veg fyrir spillingu. Íslandsdeild fagnaði skipan sérstaks fulltrúa um norðurslóðamál. Ég kem nánar að norðurslóðamálum í þessari skýrslu hér á eftir.

Loftslagsmál voru talsvert til umræðu á ársfundi ÖSE-þingsins og þingið benti á tengsl loftslagsbreytinga og átaka, og hvatti aðildarríkin til að stuðla að framfylgd Parísarsáttmálans. Íslandsdeildin lagði fram breytingartillögu við yfirlýsingu ársfundar og beindi sjónum að áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðir og lífríki sjávar. Eins og allir vita eru Íslendingar að sjálfsögðu mjög háðir því að hafið í kringum landið og hafið hér norður af okkur ekki síst sé þokkalegt heilsu, ef þannig má orða það, og við eigum þar af leiðandi að láta einskis ófreistað að brýna aðrar þjóðir um nauðsyn þess að taka alvarlega á loftslagsmálunum. Við getum svo haft ýmsar skoðanir á því hvernig eigi að gera það en á vandanum þarf að sjálfsögðu að taka eða vera meðvitaður um hann. Einnig var bent á að baráttan við afleiðingar loftslagsbreytinga kæmi helst í hlut ungmenna dagsins í dag en eins og allir þekkja þá hafa ungmenni látið til sín taka í því. Einnig var fjallað um þetta á haustfundi ÖSE-þingsins sem haldinn var í Marokkó í þetta sinn. Það var, held ég, í fyrsta sinn sem þessi haustfundur var haldinn í vinaríki, ef ég má orða það þannig, ríki sem hefur aukaaðild að þessari samkomu, sem er gott að mínu viti því að ekki er verra að geta farið með þennan boðskap út fyrir þau samstarfslönd sem þarna eru. Marokkó er góður félagi þegar við ræðum þetta, enda hafa þeir náð miklum framförum á ýmsum sviðum heima hjá sér.

Töluvert var fjallað um mikilvægi kynjajafnréttis og valdeflingar kvenna í tengslum við fjölmargar umræður á árinu, og þau mál eðlilega og oft og títt tengd loftslagsmálunum svo að eitthvað sé nefnt. Þingið samþykkti einnig sérstaka ályktun um nýtingu stafrænnar þróunar í þágu jafnréttis. Í ályktuninni var ítrekað mikilvægi þess að allir borgarar hefðu aðgang að internetinu, þ.e. þessum samskiptum sem í raun enginn getur verið án í dag, óháð kyni, aldri og þjóðerni. Þetta er inngangurinn að þessari skýrslu. Ég ætla ekki að lesa skýrsluna alla upp staf fyrir staf. Ég ætla að grípa niður í hana þar sem aðeins er komið inn á starf Íslandsdeildarinnar. En að sjálfsögðu liggur þessi skýrsla hér frammi og hvet ég þingmenn til þess að kynna sér hana.

Herra forseti. Í grófum dráttum er það hlutverk ÖSE-þingsins að hafa áhrif á stefnumótun og áherslur í starfi ÖSE, þ.e. ráðherraráðsins, og hafa eftirlit og meta árangur af starfi stofnunarinnar. Í málefnum þingsins er unnið að undirbúningi ályktana. Þær eru síðan afgreiddar á ársfundi og komið á framfæri við ráðherraráð ÖSE, sem er vettvangur utanríkisráðherra aðildarríkjanna, og fastaráð ÖSE, en þar eiga sendiherrar og fastafulltrúar aðildarlandanna sæti. Eins og kom fram í upphafi máls míns þá erum við þrjú í Íslandsdeildinni og höfum skipt með okkur störfum þar. Í nefnd um stjórnmál og öryggismál situr sá er hér stendur, Gunnar Bragi Sveinsson. Í nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál er Bryndís Haraldsdóttir og í nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál situr Guðmundur Andri Thorsson. Við héldum þrjá fundi á árinu til að undirbúa þátttöku okkar á þessum fundum. Síðan sótti ég sem formaður Íslandsdeildarinnar undirbúnings- og samráðsfund formanna sendinefnda Norðurlanda og Eystrasaltslanda í Ríga í júní og Bryndís Haraldsdóttir sinnti kosningaeftirliti á vegum ÖSE-þingsins í Hvíta-Rússlandi í nóvember.

Vetrarfundurinn var haldinn í Vín 22. febrúar og eins og venja er um þessa fundi þá funda nefndirnar og farið er yfir einstök mál. Gestir ávarpa nefndirnar og fjallað er um tillögur þeirra. Á þessum vetrarfundi var jafnframt fundað með sendinefnd frjálsra félagasamtaka um stöðu mannréttindamála í Moldóvíu og Kasakstan. Það er töluvert mikið sóst í að hitta sendinefnd ÖSE-þingsins af frjálsum félagasamtökum og reynum við eins og mögulegt er að verða við þeim óskum.

Þann 17. júní var haldinn fundur í Ríga þar sem Norðurlönd og Eystrasaltsríki hittust og báru saman bækur sínar. Þar voru rædd drög að ályktunum fyrir ársfund ÖSE-þingsins. Meðal annars var rætt um áhrif svæðisins. Það var líka rætt um nýjar reglur varðandi kosningaeftirlit. Síðan var ályktun kynnt frá formanni litháísku landsdeildarinnar um orkumál á ÖSE-svæðinu. Í ályktuninni var vakin athygli á mikilvægi þess að skoða orkumál í samhengi við varnar- og öryggismál m.a., væru löndin of háð einum aðila um orku gæti sami aðili beitt þrýstingi á alþjóðlegum vettvangi o.s.frv. Í ályktuninni var minnst á orkupakka þrjú sem gerði það að verkum að ég gat ekki staðið að henni með félögum mínum í þessari nefnd, þar sem ég taldi að þessi orkupakki, eins og allir þekkja, hefði áhrif á íslenska hagsmuni. Ályktunin var síðan flutt og um hana fjallað á fundinum.

Ýmislegt annað kom vissulega fram á þessum fundi en eitt af því sem var mjög athyglisvert er að þarna kom kona sem heitir Iluta Lace sem er framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í frjálsum félagasamtökum sem kallast Centrs Marta. Þetta eru samtök sem vinna með fórnarlömbum mansals. Hún benti á að flest fórnarlömb mansals hefðu sjálf upplifað heimilisofbeldi og jafnvel kynferðisofbeldi í æsku og talaði fyrir mjög skýru lagaumhverfi til að taka á þessum málum. Ég forvitnaðist á þessum fundi um tilvist kvennaathvarfs í Lettlandi og upplýsti hún þá að athvarf væri starfrækt í sumum bæjarfélögum og nýlega hefði fyrsta falda athvarfið verið tekið í notkun og væri verið að vinna að því að efla þessa starfsemi.

Í lok þessa fundar bauð ég, fyrir hönd íslensku sendinefndarinnar, að slíkur samráðsfundur Norður- og Eystrasaltslandanna yrði haldinn á Íslandi næst og verður hann núna í maí 2020. Ársfundurinn fór síðan fram í Lúxemborg í júlí og þar skiptum við með okkur verkum eftir þeim nefndum sem við erum skipuð í eins og gengur. Þennan fund ávarpaði forsætisráðherra Lúxemborgar, Xavier Bettel, og lagði hann mikið upp úr því í ræðu sinni að vara við uppgangi hægri öfgaflokka í Evrópu og er ekki hægt annað en að taka undir þau orð.

Á þessum ársfundi tók ég þátt í störfum nefndar um stjórnmál og öryggismál. Bryndís Haraldsdóttir tók þátt í störfum annarrar nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál. Þar lagði Bryndís fram tvær breytingartillögur í ályktun nefndarinnar sem báðar voru samþykktar og var mjög gaman að verða vitni að því að ályktanir Bryndísar skyldu ná í gegn. Með breytingartillögunum ítrekaði þingið að loftslagsbreytingar hefðu víðtæk áhrif á lífríki sjávar, annars vegar með breyttu súrefnisinnihaldi í sjó og hins vegar súrnun sjávar og enn fremur var bent á að hitastig hækkaði mun hraðar á heimskautasvæðinu en almennt í heiminum. Aðildarríki ÖSE voru hvött til að bregðast við þeirri ógn til að viðhalda andrúmslofti samstarfs og samvinnu milli norðurslóðaríkja þrátt fyrir aukin umsvif í kringum siglingar og auðlindanýtingu á norðurslóðum.

Í þriðju nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál tók Guðmundur Andri Thorsson til máls og vakti máls á málefnum hinsegin fólks. Hann ítrekaði að hlutverk stjórnmálamanna væri að tryggja að lagaumhverfið stæði vörð um mannréttindi allra þegna og í þeim tilgangi hefði Alþingi nýlega samþykkt lög um kynrænt sjálfræði. Í umræðum um ályktun um orkuöryggi á ÖSE-svæðinu nefndi sá er hér stendur mikilvægi þess að standa vörð um rétt þjóða til að nýta og stjórna orkuauðlindum sínum og ekki væru allar þjóðir svo heppnar að hafa aðgang að sjálfbærum auðlindum. Þar benti ég m.a. á að samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum væri rúmlega 6% vergrar þjóðarframleiðslu heimsins eytt í niðurgreiðslu á jarðefnaeldsneyti. Hugsið ykkur: 6% af vergri þjóðarframleiðslu heimsins fara í að greiða niður jarðefnaeldsneyti. Ég átti þess líka kost að þakka dr. Hedy Fry, sem er sérstakur fulltrúi um jafnréttismál, og Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar, fyrir innlegg þeirra á þessum fundi.

Í lok þessa fundar var forsetakjör og þar var George Tsereteli endurkjörinn með 120 gegn 84 atkvæðum en það var Doris Barnett, þingkona frá Þýskalandi, sem var í framboði til sama embættis. Við sátum svo sérstakan hádegisverðarfund um jafnréttismál í boði Hedy Fry frá Kanada, svo var hliðarviðburður Svía, um rannsókn á morðinu á Boris Nemtsov, sóttur.

Í Marrakess var, eins og áður hefur komið fram í þessu stutta ávarpi mínu, fjallað um jafnréttismál og loftslagsmál og var mjög áhugavert að hlusta á þær umræður sem þar fóru fram, ekki síst á heimamenn eða fulltrúa álfunnar Afríku sem þarna töluðu, mjög áhugavert. Þar tók Bryndís Haraldsdóttir til máls og lagði áherslu á að loftslagsbreytingar væru ein stærsta ógn gegn friði í heiminum og að það krefðist samvinnu yfir landamæri. Hún talaði að sjálfsögðu líka um að ríkisstjórn Íslands hefði sett sér metnaðarfulla stefnu til að mæta skuldbindingum sínum og fór ágætlega yfir stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi það mál og að sjálfsögðu fleira. Ég verð að nefna það líka að Bryndís sagði m.a. sjálfstæði Íslands og farsæld grundvöll að núverandi heimsskipan þar sem áhersla væri lögð á virðingu fyrir alþjóðalögum, frjálsri verslun, lýðræði og alþjóðlegri samvinnu. Hvatti Bryndís aðildarríki ÖSE til að standa vörð um sameiginleg gildi, virða mannréttindi og alþjóðalög. Að lokum lagði Bryndís áherslu á mikilvægi jafnréttis kynjanna sem væri þverlægt áherslumál í íslenskri utanríkisstefnu. Sem betur fer er það þannig, held ég, að það er alltaf hlustað þegar Íslendingar tala um jafnréttismál og málefni norðurslóða því að flest af þessum samstarfsríkjum okkar vita hvar við stöndum í þeim málum.

Í lok þessarar ráðstefnu eða þessa fundar var fjallað um trúarbrögð og m.a. um rannsóknarsetur sem er til staðar í Marokkó. Meðal annars var rætt um merkingu trúarbragða og hugmyndafræði þeirra og var áhugavert að heyra hvernig sá ágæti maður sem þar talaði fjallaði um kristni og íslamstrú og önnur trúarbrögð; mjög áhugavert og gott. Fram undan er svo vetrarfundur, fyrsti fundur þessa árs. Reikna má með að hann verði með hefðbundnu sniði en áherslurnar hjá Íslandsdeildinni verða væntanlega á svipuðu róli. Við tölum um umhverfismál, jafnréttismál, öryggismál og varnarmál, að sjálfsögðu, netöryggi og í raun hvernig við getum gert þennan heim betri og öruggari. En það er eitt af meginhlutverkum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.