150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

beiting Dyflinnarreglugerðarinnar.

[15:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Enn og aftur, í guð má vita hvaða skipti, lesum við fréttir af einstaklingi sem á að flytja úr landi og mótmæli við þeim brottflutningi af skiljanlegum ástæðum þar sem einstaklingur hefur dirfst að kynnast einhverjum Íslendingum sem hafa síðan dirfst að þykja vænt um viðkomandi einstakling. Ég er að tala um Maní sem er 17 ára trans piltur frá Íran sem stóð til að senda úr landi þar til hann fór inn á barna- og unglingageðdeild Landspítalans samkvæmt fréttum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við sjáum sambærileg mál og þetta er ekki í fyrsta sinn sem Dyflinnarreglugerðin er notuð sem ástæða fyrir því að senda einstaklinga úr landi algerlega að tilefnislausu. Senda á þennan unga pilt til Portúgals. Af hvaða ástæðum? Af því bara. Vegna þess að það er til reglugerð sem heitir Dyflinnarreglugerðin og vegna þess að þar er heimild til að senda fólk til baka. Það er ekki vegna þess að hagsmunum hans sé best borgið þar. Það er ekki vegna þess að hann sé einhver byrði á íslensku samfélagi. Það ekki vegna þess að það sé of mikið af 17 ára trans piltum sem flæða hér inn frá Íran. Nei, það er vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa tekið þá afstöðu, meðvitað eða ómeðvitað, að hleypa sem fæstum inn og nota til þess Dyflinnarreglugerðina af öllum þeim þunga sem mögulegur er.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju? Hvernig stendur á því að það þarf að beita Dyflinnarreglugerðinni í málum sem við ættum í það minnsta að geta skoðað?

Nú vil ég halda því til haga fyrir þá sem hlusta að Dyflinnarreglugerðin felur ekki í sér að fólki sé hafnað heldur það að málin eru ekki einu sinni skoðuð. Hvað er virkilega því til fyrirstöðu að mál 17 ára trans pilts frá Íran sem kemur hingað sé skoðað? Af hverju má ekki einu sinni skoða það?

Þegar þessi mál koma upp er jafnan gerð smávægileg breyting sem kannski hefur áhrif á það mál sem er í umræðunni hverju sinni, en slík mál hafa komið upp og verið í umfjöllun aftur og aftur og verið mótmælt árum saman.

Virðulegur forseti. Er ekki kominn tími til að íslensk ríkisstjórn setji sér einhverja stefnu í málefnum útlendinga sem felur í sér m.a. að geta hleypt inn fólki sem kemur hingað út af þessum ástæðum og sem er í þessum aðstæðum (Forseti hringir.) frekar en að vera sífellt að beita öllum lagatæknilegum úrræðum sem mögulegt er til að halda í burtu fólki sem er fullkomlega saklaust, á vel heima hér eins og hvar annars staðar, eftir fremsta megni?