150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

háskólar og opinberir háskólar.

185. mál
[18:08]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir stal að einhverju leyti glæpnum af mér þegar hún minntist á Færeyjar. Ég var með hv. þingmanni í heimsókn þar. Þar sá ég nýstárlegar leiðir, í það minnsta fyrir okkur hér, til að jafnsetja allt nám þar sem við gengum fram hjá einni stofu þar sem var verið að kenna stærðfræði og í næstu líffræði og hin næstu smíðar og svo var stór gluggi þar sem var verið að gera við bíl. Ég er mjög hlynntur þeirri hugmynd sem býr að baki þessari tillögu og hef heldur aldrei alveg skilið reglurnar sem hafa verið í gangi, enda er ég einfaldur maður. Einu sinni var það þannig að ef maður var kominn á ákveðinn aldur var hægt að koma í námið og eitthvað slíkt, ég hef aldrei skilið þetta alveg. Fyrir mér er þetta ósköp einfalt mál. Ef fólk hefur færni til að takast á við nám þá á það að fá að takast á við það, alveg sama hverju það hefur lokið fram að því.

Forseti. Til að ég skilji aðeins betur hvað býr að baki tillögunni og hvernig hv. flutningsmenn sjá þetta fyrir sér er ég með tvær spurningar um tillöguna nákvæmlega. Annars vegar þetta heildstæða mat sem á að leggja á umsækjendur, samkvæmt þessari tillögu um breytingu á lögunum. Hvernig sjá hv. þingmenn fyrir sé að það fari fram? Erum við að tala um inntökupróf eða er það eitthvert annars konar mat? Og svo segir hér:

„Tryggja skal að inntökuskilyrði í háskóla og námskröfur svari jafnan til þess sem krafist er í viðurkenndum háskólum á sambærilegu sviði erlendis.“

Til hvers er verið að vísa þar? Viðurkenndir háskólar á sambærilegu sviði erlendis eru mýmargir og eflaust með ólíkar kröfur margir hverjir.