150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

háskólar og opinberir háskólar.

185. mál
[18:10]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við vorum einmitt þarna saman í Færeyjum og ég held að allir sem gangi um þennan skóla hljóti að verða svolítið heillaðir af hugmyndafræðinni þar, fyrir utan hvað byggingin er glæsileg og það allt saman, þeirri hugmyndafræði fyrst og fremst að setja ekkert skör hærra eða lægra í námi. Þar held ég að ég og hv. þingmaður séum fyllilega sammála. Það þarf ekkert að vera að velta því fyrir sér að eitthvert nám gefi tækifæri til þess að fara í háskólanám en annað ekki. Þá má líka velta fyrir sér: Þegar maður er kominn með meistarapróf í iðngrein, getur maður þá ekki lært neitt meira? Maður er bara orðinn meistari og engin tækifæri á enn frekara námi. Það er auðvitað ekki þannig í nútímasamfélagi, það er stöðug þörf fyrir aukna menntun og aukin tækifæri til að efla færni sína.

Hvað viðkemur spurningum hv. þingmanns þá setjum við það svolítið í hendur háskóla eins og er að ákveðnu leyti samkvæmt lögunum í dag. Ef ég tek sem dæmi verkfræði í háskólanum þá má háskólinn setja ákveðin inntökuskilyrði fyrir það nám, að viðkomandi hafi klárað ákveðið marga áfanga í stærðfræði eða raungreinum eða eitthvað þess háttar. Eða læknisfræði ef því er að skipta. Þannig að það er í raun opið í dag og við hyggjumst ekki breyta því. En það sem lokar á möguleikana í dag í lögunum er að það er talað um að nemendur skuli hafa lokið stúdentsprófi eða jafngildu prófi. Þar er þessi lokun sem hefur bitnað á einstaklingum í ákveðnum tilfellum. Það er í raun það sem við viljum opna og finnst mikilvægt að gera.

Já, það gæti alveg verið þannig að háskólar settu skilyrði um inntökupróf, enda er það heimilt í lögunum í dag og við erum ekki að taka það út. (Forseti hringir.) Stóri munurinn er að við erum að hætta að miða okkur við það sem stendur í lögunum í dag, að nemandi skuli hafa lokið stúdentsprófi eða jafngildu prófi. Við erum að opna það. (Forseti hringir.) Ég skal svara seinni spurningunni í síðara andsvari.