150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var frétt um að verið væri að brjóta gróflega á rétti ungs drengs. Orðrétt sagði þar, með leyfi forseta:

„Við höfðum fimm daga og það var alveg sama hvað við mótmæltum, það var ekki hlustað en fram að þessu hafði alltaf verið unnið í samráði við okkur. Þarna var búið að stroka allt út af borðinu. Okkur var tjáð að ef við tækjum ekki þessa leið sem þau buðu upp á, þ.e. á sjúkrahús og hjúkrunarheimili, þá hefðum við ekki lengur aðgang að starfsfólkinu sem starfaði í skammtímavistun.“

Þarna var verið að brjóta lög, það kemur skýrt fram hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Í fréttinni segir áfram, með leyfi forseta:

„Í úrskurðarorðum nefndarinnar frá því í desember kemur fram að ákvörðun Byggðasamlags Vestfjarða hafi verið í slíku ósamræmi við lög að ekki verði hjá því komist að ógilda hana. Ákvörðunin hafi verið tekin án samráðs við foreldra kæranda, rannsókn ekki fullnægjandi og andmælaréttar hafi ekki verið gætt.“

Og brotin héldu áfram. Þessum unga dreng var líka bannað að fara í menntaskóla. Við skulum rifja upp samning Sameinuðu þjóðanna, 9. gr. um aðgengi, þar sem segir að aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgengi til jafns við aðra og að hinu efnislega umhverfi. Fyrrnefndar ráðstafanir skulu m.a. felast í því að staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum.

Það að þeir sem eiga að gæta réttinda þessara einstaklings brjóti þau gróflega er ekki ásættanlegt. Það að þessi ungi drengur eigi þann kost einan að vera vistaður á hjúkrunarheimili fyrir aldraða er fáránlegt.