150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að vitna í texta Vegagerðarinnar um flokkun vegakerfisins, úr upplýsingabæklingi Vegagerðarinnar frá 2017, með leyfi forseta:

„Stofnvegir eru hluti af grunnkerfi samgangna eins og það er skilgreint í samgönguáætlun hverju sinni. Til stofnvega teljast vegir sem tengja saman byggðir landsins. Við það vegakerfi sem þannig fæst skal tengja þéttbýlisstaði með um það bil 100 íbúa eða fleiri.“

Samkvæmt sömu skýrslu telur stofnvegakerfið 4.416 km. Rétt er að taka fram að til stofnvega teljast vissulega hálendisvegir sem ekki eru opnir allt árið. Vegir á Íslandi eru vissulega misgóðir. Almennt má segja að víða séu þeir ásættanlegir. Í vegakerfinu eru hins vegar stórhættulegir kaflar. Hringvegurinn frá Reyðarfirði og suður til Breiðdalsvíkur er einn af þeim. Eftir þessum vegi fara um 7.500 fisk- og vöruflutningabílar árlega. Um þennan veg er mikil umferð ferðamanna bæði á rútum og einkabílum. Þess ber að geta að starfsmenn Alcoa fara margir hverjir þennan veg daglega.

Samantekt EuroRAP fyrir árin 2009–2014 sýnir að þessi vegur ásamt veginum frá Fellabæ að gatnamótunum við Úlfsstaði á Völlum eru þeir kaflar í íslensku vegakerfi þar sem flest slys verða miðað við umferðarþunga. Þessi vegur sem er hluti af hringveginum er hinn svokallaði gamli Suðurfjarðavegur. Á honum eru þrjár einbreiðar brýr að austan, yfir Dalsá og Sævarendaá eða Tungá í Fáskrúðsfirði og Stöðvará í Stöðvarfirði. Hættulegasti kafli þessa vegar er frá gatnamótum í Fáskrúðsfirði og út fyrir Eyri eða um 10 km kafli. Þessi vegur er mjór og gamall og eltir landslag eins og kindagata. Vegaxlirnar eru háar og hallast bílar gjarnan til sitthvorrar áttar með tilheyrandi hættu. Þessi vegarkafli þolir enga bið.

Ég er runninn út á tíma, herra forseti, og ætla að enda á því að segja: Börnum er líka ekið daglega milli Stöðvarfjarðar og Breiðdals.