150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

stafræn endurgerð íslensks prentmáls vegna þingsályktunar nr. 20/148.

95. mál
[14:25]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það var vel til fundið hjá fyrirrennara mínum í þessum ræðustól, hv. þm. Ólafi Ísleifssyni, að vitna til hinnar frægu ritsmíðar Sigurðar Nordals um samhengið í íslenskum bókmenntum vegna þess að þetta mál snýst nákvæmlega um það. Þetta snýst um samhengið í íslenskum bókmenntum og hvernig við varðveitum það og hvernig við komum til skila fornum textum á borð við Hómilíubókina — ég játa að vísu að ég telst vanbúinn við mín ritstörf af því að ég uppfylli ekki kröfur Jóns Helgasonar um að vera heima í henni — eða Þórberg eða annað af því sem við teljum vera klassískar íslenskar bókmenntir. Það er full ástæða til að þakka þetta framtak, hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, hæstv. ráðherra Lilju Alfreðsdóttur og höfundum skýrslunnar Rán Tryggvadóttur, Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur, Eiríki Þorlákssyni og Mörtu Guðrúnu Skúladóttur fyrir sitt ágæta starf. Þetta er mjög góð og vönduð skýrsla þar sem farið er mjög vel í gegnum þau álitamál sem kunna að vera uppi um þetta og safnað er saman því sem þarf að hafa í huga þegar við undirbúum framhaldslíf íslenskra bókmennta sem þetta snýst um.

Okkur er tamt að hugsa í bókum, prentuðum bókum, en bókin á sér hins vegar ekkert endilega mjög langa sögu við að varðveita þekkingu vegna þess að þetta snýst um varðveislu þekkingar. Á Íslandi höfum við að vísu prentið sem kemur á 16. öld en alveg fram á 20. öld skrifuðu Íslendingar sjálfir bækur sínar. Í sveitum og baðstofum lásu þeir upp úr bókum sem þeir höfðu sjálfir skrifað og skrifuðu upp sín miklu safnrit þar sem þeir söfnuðu ýmiss konar fróðleik og skemmtun saman á eina bók. Það hefur verið sagt að þjóðarsjúkdómur Íslendinga sé „graphomania“, þ.e. ritæði, og við höfum heimildir um fólk sem var með ólíkindum afkastamikið við að skrifa upp alls kyns fróðleik og skemmtun milli þess sem það vann hörðum höndum að sínum sveitarstörfum. Það er sem sagt alls ekki einboðið að hugsa endilega um hina prentuðu bók sem eina staðinn sem við notum til að varðveita þekkingu, en samt er það nú svo, og ég vil gjarnan halda því til haga hér að bókasöfn, gamaldags bókasöfn, hafa sitt gildi. Ekkert er fegurra og meiri stofuprýði en gott bókasafn sem er vel og fallega innbundið. Frá bókum streyma hugsanir. Þetta eru lokaðar bækur sem eru í hillu og hugsanir streyma frá þessum bókum sem umvefja þá sem sitja umhverfis og inni í slíku bókasafni og allir verða miklu gáfaðri fyrir vikið en ella væri. Ég vil því leggja áherslu á að við höldum áfram að safna gömlum bókum í sínu gamla formi og við höldum áfram að hafa þær í kringum okkur sem prýði og stáss og mikilvægan stað fyrir varðveislu þekkingar.

Engu að síður fer líf okkar að miklu leyti fram á skjá og í skjáumhverfi. Það að gera gamlar bækur tiltækar í slíku umhverfi gefur þeim nýtt líf og það hefur gildi ekki aðeins fyrir okkur sem unnendur og njótendur bókmennta og fróðleiks og skemmtunar heldur hefur það líka alveg sérstakt gildi fyrir alla þá sem þurfa að vinna með texta, fræðimenn sem þurfa að geta flett upp í textum, og sparar og auðveldar þeim alveg stórkostlega vinnu sínu og loks ekki síst, sem er nú aðeins drepið á í þessari skýrslu, hefur það gildi fyrir vísindamenn sem kanna málið og gera okkur kleift að fleyta málinu okkar áfram inn í nýja öld.

Við megum ekki gleyma því að bækur eru enn markaðsvara. Bækur eru ekki alveg útdauð markaðsvara og þess vegna er mikilvægt, sem einmitt er fjallað um í þessari skýrslu, að bækur fái áfram að njóta sín á markaði, nýjar bækur, þær séu enn þá söluvara, og að þeir sem setja saman bækur, sem eru bæði rithöfundar og annað bókagerðarfólk, geti haft einhverjar tekjur af iðju sinni. Þess vegna hefur ártalið 2000 verið nefnt, sem er sótt til Noregs, það er fyrirmynd í Noregi að miða við það ártal. Ég veit ekki nema hafa mætti það einhvers staðar framar á 20. öldinni. Sjálfur byrjaði ég að skrifa bækur árið 1987 eða 1988, minnir mig, og ég hef enn von um að mér takist að mjatla út einhverjum eintökum af því sem kann að vera eftir af því upplagi. Bókmenntir eru því enn markaðsvara, ekki eingöngu í formi hinnar prentuðu bókar heldur eru útgáfurnar með margvíslega viðleitni til að selja þennan texta sem rafbækur, sem hljóðbækur og í öðru formi. Það ber að virða þetta og ber að taka tillit til þess.

Það skiptir miklu máli fyrir lesendur að eiga þess kost að geta gripið til bóka og lesið bækur og notað bækur í tölvu og öðru skjáumhverfi. Nú þegar hefur hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé nefnt tímarit.is sem fjöldi manns notar daglega. Ég vil líka nefna heimildir.is sem er ákaflega gagnlegur vefur á vegum Þjóðskjalasafnsins sem fræðimenn, oft í hefðbundnum gömlum íslenskum fræðum, geta notað ótæpilega. Það er eitt sem vefst örlítið fyrir mér varðandi notkun en það eru áform um að binda þetta við íslenskar IP-tölur, að takmarka þetta við þá notendur sem tengjast efninu í gegnum íslenskar netveitur og takmarka þetta við íslenskar IP-tölur. Þetta kann að vera fjárhagsmál og það kunna að vera einhver slík sjónarmið sem þarf að huga að. En ég vil minna á að íslensk fræði eru stunduð um allan heim. Það eru fræðimenn sem búa um allan heim sem þurfa að geta stundað íslensk fræði og þurfa að nota vefi á borð við heimildir.is. Víða um veröld eru mjög mikilvægir sendiherrar íslenskrar menningar sem eru þýðendurnir okkar. Það er fólk sem þýðir nútímabókmenntir úr íslensku og hefur gert ákaflega mikið til að auka hróður lands og þjóðar. Við þurfum að hafa í huga þarfir þess fólks þegar við göngum frá þessu og þýðendurnir þyrftu að geta haft álíka greiðan aðgang að þessum bókmenntum og aðrir lesendur íslenskra bókmennta.

Ég tek undir það sem segir hér um nauðsyn samráðs við prentleturshamlað fólk, þ.e. fólk sem af einhverjum ástæðum á erfitt um vik með að lesa bækur og/eða lesa texta, og samráð við vísindasamfélagið. Ég tek einnig undir nauðsyn þess að hafa samráð við það. Sum sé: Gott mál og full ástæða til að þakka þessa skýrslu.