150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

merking á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

241. mál
[17:16]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um merkingu á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu. Flutningsmenn með mér á þessari tillögu eru hv. þingmenn Ólafur Þór Gunnarsson, Helga Vala Helgadóttir, Guðjón S. Brjánsson, Jón Steindór Valdimarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa tillögutextann sjálfan beint eins og hann kemur upp, enda er hann frekar stuttur:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til nauðsynlegra ráðstafana annars vegar til að merkja uppruna vara sem framleiddar eru á hernumdum svæðum Palestínu með viðeigandi hætti og hins vegar til að gera Palestínumönnum kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu.“

Þannig hljómar ályktunartextinn. Þessi tillaga hefur verið flutt þó nokkuð oft áður, þó ekki alveg jafn oft og málið sem var rætt hér á undan. En hún hefur sem sagt verið flutt á 141., 142., 143., 144., 145. og 146. löggjafarþingi og á 149. löggjafarþingi en hefur ekki enn hlotið afgreiðslu og er nú að mestu flutt óbreytt.

Það sem hefur tekið breytingum milli þinga er að greinargerð hvað varðar viðskiptatölfræði hefur verið uppfærð eftir því sem auðnast hefur að afla nýrra talna og nýrra gagna.

Stjórnmálasamband Íslands og Ísraels á sér nokkuð langa sögu og hafa viðskipti milli þjóðanna verið töluverð. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni nam innflutningur á vöru þaðan 918,6 millj. kr. árið 2017 og 2.181,9 millj. kr. árið 2018. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands var á árunum 2010–2018 ekkert flutt inn frá Palestínu.

Eins og áður sagði fjallar þingsályktunartillagan annars vegar um það að merkja vörur sem eru framleiddar á hernumdum svæðum Palestínu. Víða um heim hafa stjórnvöld og neytendur vaknað til vitundar um að hluti útflutningsvara frá Ísrael eigi uppruna sinn ekki að rekja til svæða innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra Ísraelsríkis, heldur til ólöglegra landnemabyggða á hernumdum svæðum Palestínu, en þær eru einkum á Vesturbakka Jórdanar og í austurhluta Jerúsalemborgar. Þessum byggðum hefur farið fjölgandi, enda þótt þær stríði gegn alþjóðlega viðurkenndum landamærum, ráðgefandi áliti Alþjóðadómstólsins í Haag og fjölda ályktana Sameinuðu þjóðanna.

Við þetta er að bæta að í síðustu viku varð pínulítil hreyfing á þessum málum þar sem skrifstofa mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum sendi frá sér lista yfir 112 fyrirtæki sem standa í viðskiptum sem tengjast ólöglegum landnemabyggðum Ísraela á palestínsku landi. En þessi listi var tekinn saman að beiðni mannréttindaráðsins. Þarna eru sem sagt tiltekin 112 fyrirtæki, 94 sem eru staðsett í Ísrael og 18 í sex öðrum löndum, svo sem í Bandaríkjunum, Frakklandi, Hollandi, Lúxemborg, Tælandi og Bretlandi. Og það að þessi listi hafi verið tekinn saman og sé orðinn til tel ég vera til marks um að í gangi sé einhver alþjóðleg viðleitni eða tilhneiging til að tengja saman viðskipti og stjórnmálalega ábyrgð. Ég vonast til þess að hann verði einnig til að ýta enn frekar við þessu máli núna. Ísland hefur aldrei, ekki frekar en Sameinuðu þjóðirnar, viðurkennt landnemabyggðirnar sem hluta af Ísraelsríki og því ætti ekki að viðurkenna Ísraelsríki sem upprunaland þeirra vara sem framleiddar eru í landnemabyggðunum.

Árið 2015 sendi framkvæmdastjórn ESB frá sér leiðbeiningar hvað slíkar merkingar varðar en því miður hefur ekki nægilega mikið verið að gerast í þessu máli á heimsvísu. En eins og ég fór yfir hér áðan bind ég vonir við að með þeim lista sem er nú kominn frá Sameinuðu þjóðunum verði hreyfing á þessu máli. Með þeim ráðstöfunum sem þessi þingsályktunartillaga kallar eftir yrði íslenskum neytendum gert kleift að taka sjálfir ákvörðun um það hvort þeir vilji styðja efnahagslíf í ólöglegum landnemabyggðum á hernumdum svæðum Palestínu og það er ekkert víst að sérmerking slíkra vara hefði mikil áhrif á viðskipti Íslands og Ísraels heldur ætti merkingin frekar að gera vörur sem skráðar eru sem ísraelskar afurðir og eru sannarlega framleiddar á ísraelsku landsvæði síður tortryggilegar.

Eins og ég fór yfir í ályktunartextanum er einnig fjallað um það í þessari tillögu að gera Palestínumönnum kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu. Fríverslunarsamtök Evrópu og Frelsissamtök Palestínumanna, fyrir hönd þjóðarráðs Palestínu, hafa gert með sér bráðabirgðafríverslunarsamning sem tók gildi 1. júlí 1999 og hann er prentaður sem fylgiskjal með þingsályktunartillögunni. Tilgangurinn með gerð bráðabirgðasamningsins var að tryggja jafnvægi milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsríkjanna í viðskiptum við löndin við sunnanvert Miðjarðarhaf. Þá var samningurinn talinn vera mikilvægur hlekkur í stuðningi við friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs. Því miður hefur samningurinn ekki verið virkur sem skyldi og viðskipti EFTA við heimasvæði Palestínumanna eru takmörkuð. Heildarviðskiptin námu einungis 28,6 milljónum evra árið 2018 og voru í reynd einungis útflutningur EFTA til Palestínumanna. Þannig að þetta gekk ekki í hina áttina. Þá hefur því verið haldið fram að Ísrael komi í reynd í veg fyrir að Palestínumenn nái að fullnusta þennan samning og njóta þeirra fríðinda sem honum fylgja því að landsvæði Palestínumanna sé sundurrist af múrum sem koma í veg fyrir það að þeir geti yrkt land sitt og eðlilegir vöruflutningar geti farið fram.

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar er þetta ekki í fyrsta sinn sem mælt er fyrir þessari tillögu. Árið 2017 var málið sent út til umsagnar og fékk jákvæða umsögn frá Félaginu Ísland-Palestína, sem kemur kannski ekki á óvart, en einnig frá Alþýðusambandi Íslands, sem skiptir máli. Það sem skiptir miklu máli er að einnig barst jákvæð umsögn frá utanríkisráðuneytinu þar sem það er dregið fram að ráðuneytið telji eðlilegt að neytendur séu upplýstir um uppruna þeirra vara sem þeir eru að kaupa. Í umsögn utanríkisráðuneytisins er jafnframt dregið fram að landtökubyggðir Ísraela á hernumdum svæðum Palestínu brjóti í bága við alþjóðalög og þar við bætist að landtökubyggðirnar eru á svæðum sem ekki er viðurkennt alþjóðlega að tilheyri Ísrael. Þar er líka áréttað að Alþingi Íslendinga hafi með ákvörðun frá árinu 2011 viðurkennt sjálfstæði og fullveldi Palestínu á því landsvæði. Þannig taki fríverslunarsamningur EFTA-ríkja við Ísrael einungis til landsvæða innan viðurkenndra landamæra Ísraels, ekki til landtökubyggðanna. Því megi telja óeðlilegt að varningur framleiddur í landtökubyggðunum á hernumdu svæðunum sé merktur sem framleiðsla frá Ísrael og að sérmerking varnings frá landtökubyggðunum væri því eðlilegt skref.

Líkt og ég hef rakið er um að ræða gríðarstórt réttlætismál en að sama skapi neytendamál. Hér fer það saman að það skiptir máli í alþjóðapólitíkinni að fyrirtæki sigli ekki undir fölsku flaggi með það hvar vörur eru í raun framleiddar og við hvaða aðstæður og að neytendur eigi rétt á að vita hvaðan vörurnar eru sem þeir eru að kaupa. Og líkt og ég fór yfir í ræðu minni tel ég að þetta geti einnig orðið til góðs fyrir ísraelsk fyrirtæki sem eru með starfsemi í Ísrael. Þetta ætti því í raun að vera jákvætt fyrir báða aðila, þ.e. ef við gefum okkur þá forsendu að ekki eigi að vera með yfirgangssemi og fara fram undir fölsku flaggi.

Ég er að vonast til þess að nú komist hreyfing á þetta mál þar sem Sameinuðu þjóðirnar hafa gert um það skýrslu og birt. Líkt og ég sagði kom hún út í síðustu viku þannig að nú fer umræðan vonandi af stað. Ég held að hér geti skipt máli að Ísland sé í broddi fylkingar þegar kemur að þessum málum, við höfum áður verið það í málum sem snerta Palestínu. Ég legg því til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til utanríkismálanefndar og ég vona að við göngum svo frá þessu og klárum þetta mál síðar á þessu þingi.