150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

leiðrétting á lögum um almannatryggingar.

[10:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkru kom upp rifrildi milli félagsmálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis vegna endurgreiðslna búsetuskerðinga þar sem því var haldið fram að ekki væri hægt að endurgreiða búsetuskerðingar af því að ekki fengist heimild um það frá fjármálaráðherra. Þetta var ákveðið rifrildi sem var í gangi sem gat komið út á einn eða annan veg o.s.frv. Það er því mjög eðlilegt að í þessu tilviki sé spurt aftur: Er þetta fjárheimildavandamál eða liggur ábyrgðin í alvörunni hjá velferðarráðuneytinu? Hver tók ákvörðunina? Það er talað hérna um ýtrustu sanngirni. Hér er málsaðili sem fær greidda 10% vexti á meðan 31.999 aðrir aðilar fá ekki 10% heldur 5,5%. Hver er sanngirnin í því?

Það er orðið dálítið athyglisvert líka hvernig fjármála- og efnahagsráðherra kemur ítrekað upp í andsvör og segist ekki skilja neitt. Ég held að það sé kjarninn í vandamálinu þegar allt kemur til alls.