150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

efnahagsmál.

[11:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég held að við hæstv. ráðherra séum nokkuð sammála um það að það skiptir öllu máli í innviðafjárfestingum að þær séu arðbærar til lengri tíma. Ég saknaði þess raunar svolítið í upptalningu hæstv. menntamálaráðherra að hún hugsaði ekki til samflokksmanns síns og formanns um vegaframkvæmdir. Ég tel að við höfum á undanförnum árum byggt hagvöxt á uppgangi í ferðaþjónustu en að verulegu leyti höfum við svelt vegaframkvæmdir á móti. Ég held að mjög mikilvægt sé að ráðast í framkvæmdir eins og að hraða tvöföldun Reykjanesbrautar og tryggja öryggi á Suðurlandsvegi. Við sjáum allt of mikla slysatíðni á Suðurlandsvegi með stórauknum ferðamannastraumi.

Ég held að nú sé einmitt rétti tímapunkturinn til að ráðast af ákveðni og hraða í slíkar fjárfestingar en ég óttast að það dragist ef það verður algjörlega spyrt saman við sölu á bönkum. Ég styð sölu á bönkum, ég tel ríkið vera með allt of stóran eignarhlut í fjármálakerfinu, en það mun taka tíma að losa um hann. Þess vegna tel ég eðlilegt að við horfum til þess með hvaða öðrum hætti við getum hraðað innviðafjárfestingum og fjármagnað þær til skamms tíma þó svo að til lengri tíma litið sé mjög skynsamlegt að losa sig við eignir eins og fjármálastofnanir á móti.