150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stuðningur við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins.

[11:13]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir að vekja máls á þessari mikilvægu umræðu um stuðning við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins. Eins og margoft hefur komið fram í máli mínu, og ég veit að við hv. þingmaður erum hjartanlega sammála, er öflug nýsköpun forsenda þess að við getum tekist á við allar helstu áskoranir nútíðar og framtíðar. Þess vegna fagna ég þessari umræðu sem og öllum öðrum sem snúa að nýsköpun. Ein af okkar stóru áskorunum í dag eru þær öru tæknibreytingar sem kenndar eru við fjórðu iðnbyltinguna og það er okkar sameiginlega verkefni að passa upp á að þær breytingar leiði ekki til aukins aðskilnaðar í samfélaginu. Þess vegna verðum við að efla rannsóknir og nýsköpun á öllum sviðum samfélagsins, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli.

Í úttekt Daða Más Kristóferssonar, sem hv. þingmaður vísaði til, var kannað hvernig styrkir til rannsókna og nýsköpunar dreifðust eftir landsvæðum á tímabilinu 2014–2018. Skoðaðir voru ýmsir opinberir samkeppnissjóðir en einnig skattafsláttur vegna rannsókna og þróunar og bein framlög til háskóla. Í úttektinni kom fram að langstærstur hluti framlaga fór til höfuðborgarsvæðisins enda flestar umsóknir frá því svæði. Hins vegar var árangurshlutfall umsókna mjög mismunandi eftir landshlutum og þar bar höfuðborgin ekki hærri hlut en önnur landsvæði. Árangurshlutfall var þannig hæst á Vestfjörðum, bæði hvað varðar Tækniþróunarsjóð og Rannsóknasjóð. Það er auðvitað til vitnis um öflugt rannsókna- og nýsköpunarstarf á því svæði. Þegar heildarfjárframlög voru hins vegar borin saman við íbúafjölda kom fram að Norðvesturland stóð jafnfætis höfuðborgarsvæðinu hvað varðaði framlög á hvern íbúa og almennt stóðu þeir landshlutar betur að vígi þar sem háskólastarfsemi á sér stað. Þetta minnir okkur auðvitað á mikilvægi menntunar og færni í rannsóknum og nýsköpun.

Tækniþróunarsjóður, sem heyrir undir ráðuneyti mitt, byggir úthlutunarreglur sínar fyrst og fremst á gæðum umsókna óháð því hvaðan þær koma. Framlög í sjóðinn voru aukin til muna fyrir nokkrum árum og umfang sjóðsins stækkað en þar sem umsóknum fjölgaði einnig mikið eru í dag aðeins um 12% umsagna sem fá styrk hverju sinni. Út frá sjónarmiði landsbyggðarinnar þýðir þetta að um átta umsóknir þurfa að meðaltali að koma frá viðkomandi landshluta til að ein þeirra fái styrk og flest árin eru umsóknir landshlutanna færri en átta.

Umsókn í Tækniþróunarsjóð er ekki endilega besta lausnin fyrir frumkvöðla á landsbyggðinni heldur þurfum við að horfa á stuðningsumhverfið í stærra samhengi og horfa m.a. til þess hvernig megi auka menntun og færni um land allt og jafnvel draga fram sérstöðu hvers og eins landshluta. Við sjáum að innviðir eins og menntastofnanir og rannsóknastarf er það sem þarf að koma á undan til að hitt komi. Til viðbótar við stuðning í gegnum samkeppnissjóði höfum við á síðustu árum aukið mjög skattendurgreiðslu til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar. Það er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um eflingu rannsókna og þróunarstarfs og bætt samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja. Hér hafa umsóknir frá landsbyggðinni verið tiltölulega fáar hingað til og úr því viljum við bæta og við höfum lagt aukna áherslu á kynningu á þessum stuðningi um land allt. Ég held að ég hafi nefnt þetta í öllum fyrirtækjaheimsóknum í hringferð um daginn. Í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðuneytið erum við einnig að fara af stað með greiningu á áhrifum þessa skattafsláttar, m.a. með tilliti til landsbyggðarsjónarmiða, og munum við nýta niðurstöðurnar til að móta þennan opinbera stuðning enn frekar.

Eitt af leiðarljósum nýsköpunarstefnu er áhersla á beinan stuðning og aðgerðir frekar en yfirbyggingu og umsýslu. Í þeim anda höfum við ekki áætlanir um að fjölga opinberum störfum á sviði nýsköpunar á landsbyggðinni. Við viljum frekar beita okkur fyrir meiri samþættingu aðgerða og aukinni samvinnu þvert á ráðuneyti, svo stuðningur við rannsóknir og nýsköpun sé sniðinn að þörfum viðkomandi landshluta og á forsendum íbúa sem þar búa. Við höfum sem dæmi áhuga á því að auka stuðning nýsköpunar innan sóknaráætlana landshlutanna og nýta betur þá innviði sem eru til staðar til rannsókna, nýsköpunar og atvinnuþróunar. Við erum t.d. í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið, í kjölfar þingsályktunar sem samþykkt var hér og flutt af Samfylkingu og Pírötum, ef ég þekki rétt, að vinna að markvissri umgjörð um stafrænar smiðjur, FabLabs, um allt land. Þessar smiðjur eru í dag reknar á átta stöðum á landinu í samstarfi við framhaldsskóla og nærumhverfi og við viljum gefa þessari starfsemi fastara land undir fótum af því að þarna gefast einfaldlega tækifæri til að virkja sköpunarkraft og frumkvöðlamennsku um land allt.

Ég verð að nýta þessar síðustu sekúndur í að taka undir með hv. þingmanni þegar hún nefnir að það sé mikilvægt fyrir frumkvöðla að komast í umhverfi með öðrum frumkvöðlum. Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir hefur sömuleiðis nefnt að þetta snúist um meiri sambúð og minni fjarbúð. Það er í þeim anda sem við sjáum fyrir okkur þessa uppbyggingu úti á landi, (Forseti hringir.) að það sé raunverulega fyrir hendi umhverfi og aðstæður fyrir fólk til að koma saman, þar sem það kemst í tæki, kemst í kaffibolla með öllum hinum sem eru líka að hugsa um að stofna fyrirtæki, (Forseti hringir.) af því að þannig spretta upp þessi tré, þessi nýju tækifæri, þegar við sjáum um að vökva garðinn.