150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

leiga skráningarskyldra ökutækja.

386. mál
[12:21]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Það væri ágætt fyrir ráðherra að fylgjast með eða vera í salnum þegar verið er að greiða atkvæði um frávísunartillögu á hennar máli. Það eru málefnalegar ástæður til að vísa málinu aftur til ráðherra. Þetta eru minnstu hugsanlegu skref sem hægt er að taka. Það hefði verið hægt að gera miklu meira, ráðherra hefði átt að gera miklu meira og við ræddum það í nefndinni. Við báðum um að haft væri samband við ráðherra um að skoða hlutina. Að vísu má segja ráðherra eitt til málsbóta, skilaboð komu til baka um að það eigi að setja skýrari atriði í reglugerðum. Í meðförum nefndarinnar var málið aðeins lagað en það væri rosalega gott fyrir okkur að fá svar við spurningunni: Hvað hyggst ráðherra gera í kjölfarið? Við báðum líka um að senda þau skilaboð til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að setja ekki bara þessi lög fyrir bílaleigur heldur líka bílasölur og einstaklinga. Sá sem lækkar kílómetratöluna á mælinum sem bæði veldur fólki fjárhagsskaða og skapar óöryggi í umferðinni á að vita (Forseti hringir.) að það sé ólöglegt heilt yfir.