150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

555. mál
[12:27]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég kem hérna upp vegna umræðu okkar flutningsmanns þessa frumvarps, hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, við 1. umr. þar sem ég spurði hv. þingmann hvort verið væri að binda hendur persónuverndarfulltrúa, eins og frumvarpið mælir fyrir um, of mikið og takmarka tjáningarfrelsi viðkomandi of mikið ef hann verður vitni að einhverju misjöfnu í störfum sínum. Við samþykktum í fyrra reglur um að opinberir starfsmenn mættu greina frá atvikum ef það varðaði almannaheill. Við erum líka að vinna mál í þinginu er varðar vernd uppljóstrara en svo virðist sem þessari spurningu hafi ekki verið svarað í nefndinni fyrir 2. umr. Mér skilst að málið hafi ekki farið inn í nefndina þannig að ég velti fyrir mér hvort það gæti verið rétt að nefndin fengi bara svör við þeim spurningum hvort við værum að binda þennan einstaka starfsmann of mikið umfram alla aðra starfsmenn.