150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

heimild forstöðumanna ríkisstofnana til að hækka eftirlaun.

[15:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Nei, ég get ekki tekið undir það að við séum hér með algerlega opinn krana. Við erum að hluta til að fást við ákveðinn fortíðarvanda. Við erum með fleiri en eitt kerfi lífeyrisréttinda í gangi í dag. Með A-deild LSR vildum við taka upp nýtt fyrirkomulag. Við höfum á undanförnum árum gert grundvallarbreytingar á lífeyrisréttindaávinnslu í því kerfi með því að við afnámum í reynd ríkisábyrgðina. Það er því langt frá því að við séum hér með opinn krana fyrir alla forstöðumenn. Hins vegar eru í eldri kerfunum réttindi sem eru mjög veruleg og svona breytingar á starfskjörum geta haft, yfir allan væntan lífaldur þeirra sem í hlut eiga, gríðarlega mikinn uppsafnaðan kostnað í för með sér ef hann er núvirtur. Ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu vegna þess að það er sameiginlegt hagsmunamál okkar að gera okkur grein fyrir þessu og koma í veg fyrir að skuldbindingar safnist upp til framtíðar (Forseti hringir.) sem við gerum okkur ekki grein fyrir eða ekki stendur til að gefa út eftirlitslaust.