150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

bann við svartolíu á norðurslóðum.

[15:26]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál sem ég veit að er okkur báðum mjög hugleikið. Þegar við komum að umræðu um svartolíu er annars vegar um að ræða það sem Alþjóðasiglingamálastofnun var að ræða á þeim fundi sem þingmaðurinn kom inn á en síðan er í rauninni það sem íslensk stjórnvöld hafa gert og geta gert. Ég hef ekki nákvæmar upplýsingar af fundinum en get að sjálfsögðu tekið þær saman fyrir hv. þingmann í framhaldinu. En kannski skiptir ekki síður máli hvað við höfum gert hérna heima. Um síðustu áramót tók gildi ný reglugerð sem ég skrifaði undir í nóvember eða desember þess efnis að innan efnahagslögsögu okkar sé brennisteinsinnihald í skipaolíu fært niður í 0,5% í samræmi við þær alþjóðlegu tillögur og ákvarðanir sem Alþjóðasiglingamálastofnun hefur tekið. Við Íslendingar gengum hins vegar lengra með þessari reglugerð þegar kemur að þeim svæðum sem eru innan 12 mílna og færðum það niður í 0,1%. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að þar með er í rauninni notkun svartolíu bönnuð nema ef til kemur hreinsun á skipunum með þar til gerðum búnaði. Ég vil því meina að við höfum stigið mjög stór skref þegar kemur að því að takast á við þetta mál nú þegar hér heima á Íslandi.