150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

staða efnahagsmála og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við kólnun hagkerfisins.

[15:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Þegar þing kom saman eftir áramót bentum við þingmenn Miðflokksins á mikilvægi þess að bregðast við þróuninni í efnahagsmálum og einnig rekstrarvanda smærri fyrirtækja sem þá var orðin augljós og lögðum m.a. til hraðari lækkun tryggingagjalds og innviðafjárfestingu. Einnig bentum við á við síðustu fjárlagagerð, og raunar þarsíðustu líka, að áætlanir ríkisstjórnarinnar miðuðu við allt of mikla bjartsýni í efnahagsmálum. Það er auðvitað rétt sem hæstv. fjármálaráðherra segir að ríkisstjórnin á ekki annan valkost en að horfa til formlegrar spár, en ríkisstjórnin ætti engu að síður að vera viðbúin því að út af þeirri spá bregði, sérstaklega þegar birtast merki um að sú verði líklega raunin. En það hefur vantað mjög mikið upp á að ríkisstjórnin hefði eitthvert plan til að bregðast við ef formlegu spárnar gengju ekki eftir.

Við bentum líka á mikilvægi þess í þessu samhengi að nýta tækifærið til að draga úr bákninu. Þá var svarið alltaf frá hæstv. fjármálaráðherra: Ja, báknið er ekkert að stækka hlutfallslega vegna þess að landsframleiðsla eykst þeim mun meira. En hver er svo raunin þegar landsframleiðsla hættir að aukast og raunar dregst saman? Nú, þá fá menn þetta allt í hausinn. Þá stækkar báknið þeim mun hraðar og verður þeim mun erfiðara að takast á við það. Það hefur því skort mjög á undirbúninginn af hálfu ríkisstjórnarinnar til að takast á við þær sveiflur sem hún gat þó gert ráð fyrir, hvað sem leið þeim opinberu spám sem hún miðaði við. Nú kalla aðstæður á aukna innviðafjárfestingu og aðgerðir, eins og hraðari lækkun tryggingagjalds. En ef betur hefði tekist til, og engin ástæða til að gefast upp á því við að draga úr bákninu, væri svigrúmið líka meira til að bregðast við þegar hallar undan fæti í efnahagsmálum.