150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

íslenskur ríkisborgararéttur.

252. mál
[16:43]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þeir sem mynda íslenska ríkið eru einstaklingarnir sem teljast íslenskir ríkisborgarar. Þessir einstaklingar hafa ákveðinn rétt hér á landi og bera einnig ákveðnar skyldur gagnvart ríkinu og öðrum þeim sem í þeim sama félagsskap eru. Í ákveðnum tilvikum ákveðum við hins vegar að veita þeim sem eftir því leita þann sérstaka rétt að verða íslenskir ríkisborgarar. Þó að þessu frumvarpi sé að einhverju leyti ætlað að færa málin til betri vegar í mörgum tilvikum eru annmarkar á því sem ég get ekki fellt mig við, t.d. að það sé opnað á að stórglæpamenn sem hafa fengið refsidóm upp á kannski á tíu ára fangelsi verði íslenskir ríkisborgarar með einfaldri stjórnvaldsákvörðun. Slíkt er óásættanlegt, herra forseti.

Einnig tel ég ótækt að stjórnvaldi verði heimilað að veita einstaklingum rétt til þess að verða ríkisborgarar hér á landi sem geta hvorki lagt fram skilríki né sakavottorð eða sannað á sér deili á annan hátt.