150. löggjafarþing — 63. fundur,  24. feb. 2020.

endurskoðun á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

400. mál
[17:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. En hvað með fullgildingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda? 35 ríki hafa þegar fyrir löngu fullgilt samþykktina, m.a. Norðurlandaþjóðirnar Svíþjóð og Finnland, og Danmörk og Noregur byggja á ámóta reglum. Við höfum aðeins tileinkað okkur þetta í einhverjum frávikstilvikum og eins og hæstv. ráðherra kom inn á er ágreiningur um þetta. Menn hafa tekið á aðilum á vinnumarkaði með silkihönskum. Menn hafa ímyndað sér að þetta geri það að verkum að vinnumarkaður verði ekki jafn sveigjanlegur og áður.

Meginefni samþykktarinnar eru ekki flókin. Þau eru þrjú, það er skylt að rökstyðja uppsögn starfsmanns ef hann óskar eftir því, það má ekki segja upp starfsmanni nema gild ástæða sé fyrir því og það yrði tilgreint í samþykktinni hvað ekki dugar til að segja starfsmanni upp. Það er það sem menn hafa verið að brenna sig á á vinnumarkaði hér heima. Á stórum vinnustöðum í mínu kjördæmi eru menn óttaslegnir um að missa starfið sitt. Í þessari samþykkt er líka tilgreint ákveðið málsmeðferðarkerfi, það verður að gera þetta með ákveðnum aðferðum og gefa mönnum kost á því að gera grein fyrir sínum málum. Ég bendi líka hæstv. ráðherra á, og hann man eflaust eftir því, að hann lagði fram þingsályktunartillögu árið 2010, á 139. löggjafarþingi, þar sem hann lagði eindregið til að þessi samþykkt yrði innleidd. Hefur hann skipt um skoðun? Nú er hann í kjörstöðu (Forseti hringir.) til að innleiða þessa samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.