150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

vestnorræn umhverfisverðlaun hafsins.

511. mál
[14:21]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að stinga inn nokkrum orðum af því tilefni að utanríkismálanefnd hefur fjallað um þessa tillögu frá Vestnorræna ráðinu um vestnorræn umhverfisverðlaun hafsins. Ég þakka fyrir jákvæða umfjöllun nefndarinnar og snara meðferð, stutt en skilmerkilegt nefndarálit og frábæran flutning á því. [Hlátur í þingsal.] Við þekkjum öll þær áskoranir sem heimurinn stendur frammi fyrir af völdum loftslagsbreytinga og mengunar. Æ fleiri einstaklingar, stofnanir, fyrirtæki og samfélög gera sér grein fyrir ógninni, að hún sé raunveruleg og alvarleg, að ekki sé valkostur að sitja hjá með hendur í skauti.

Mengun í hafinu og súrnun þess er tilhugsun sem skelfir marga. Líffræðilegri fjölbreytni er þar með líka ógnað. Fleiri og fleiri snúa vörn í sókn, þróa sjálfbæra orku og finna sjálfbærar lausnir í matvælaframleiðslu með öllum tiltækum ráðum.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun hafa sett þessi málefni á oddinn. Það var ánægjulegt að fá að taka þátt í fundi á föstudaginn með Landssambandi ungmennafélaga. Þar var boðið upp á opið samtal vestnorrænna ungmenna um framtíð líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa. Það verður að segjast eins og er að það fyllir mann bjartsýni þegar unga fólkið heldur merkinu svona greinilega og vel á lofti og er upplýst. Þarna átti sér stað samtal með ungu fólki við fagfólk og sérfræðinga. Það fór vel á með fólki og það er ljóst að þeir sem brátt taka við keflinu gera sér ljóst að það verður að bregðast við. Þessi viðburður var ekki einn og stakur, hann var einn af fleirum í vinnustofum ungmenna víðs vegar á Norðurlöndum um líffræðilega fjölbreytni og vistkerfi í aðdraganda viðræðna um nýjan samning Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði í október. Þá er gert ráð fyrir að þessar kröfur eða hugmyndir og niðurstöður vinnuhópa unga fólksins verði teknar inn í kröfur ungmenna og muni skila sér í þessar samningaviðræður. Þetta er mjög mikilvægt atriði.

Okkur er vel ljóst að áhugi á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum er sífellt að aukast. Stórveldin virðast keppast um áhrif á svæðinu og ítök í þeim náttúruauðlindum sem á norðurslóðum er að finna. Við þekkjum samkeppni um yfirráð yfir náttúruauðlindum á landi en auðlindir hafsins munu leika lykilhlutverk í alþjóðastjórnmálum í framtíðinni. Í vestnorrænu ríkjunum er umtalsverð vitundarvakning gagnvart hagsmunum sem snúa að hafinu. Náttúruauðlindaráðið í Attu við vesturströnd Grænlands hlaut t.d. umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2018 og það er til merkis um þessa vakningu á Grænlandi. Náttúruauðlindaráðið í Attu hlaut þessi verðlaun fyrir frumkvæði og ötult starf að skrásetningu upplýsinga um hafsvæði og fyrir tillögur að leiðum til stjórnunar hafsvæða. Náttúruauðlindaráðið sem var sett á laggirnar af fólkinu sjálfu, grasrótinni, er uppspretta félagslegrar samkenndar og vísindasamfélagsins sömuleiðis, almennings og stjórnunaraðila. Þau hafa þegar getið af sér svipuð verkefni, m.a. í Finnlandi og Rússlandi, og hafa alla burði til að breiðast út til margra fleiri landa á hafi og landi, á norðurslóðum sem og utan þeirra, til góðs fyrir náttúru og umhverfi.

Það er nauðsynlegt að standa vörð um rétt þjóða til sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins. Nýta þarf gagnreyndar aðferðir, rannsóknir og losa okkur undan hindurvitnum. Umræðu um friðun stórra svæða á norðurslóðum þarf að mæta með upplýsingagjöf um ábyrga fiskveiðistjórn og ábyrga atvinnustarfsemi. Ísland, Færeyjar og Grænland ættu því að leggja sig eftir því að móta umræðu um þessi málefni á alþjóðavettvangi. Þessari tillögu um vestnorræn umhverfisverðlaun hafsins sem vonandi verður að ályktun Alþingis er beint að stjórnvöldum, þ.e. að vestnorræn stjórnvöld vinni að því að gera þessi verðlaun og þessa viðurkenningu að veruleika. Þetta er yfirlýsing auðvitað til alþjóðasamfélagsins um okkar hug og stefnu. Þau yrðu veitt frumkvöðlum, samtökum, fyrirtækjum, sveitarfélögum, ríkisstjórnum, stofnunum eða einstaklingum, hvort sem er á Vestur-Norðurlöndum eða utan þeirra.

Við höfum væntingar um að verðlaun af þessu tagi myndu vekja athygli á alþjóðlegum vettvangi um mikilvægi hafsins um þessa auðlind sem verður kannski ekki endurreist ef við förum illa með hana. Við þurfum að gæta að því að við eigum að skila þessari auðlind eins og öðrum til komandi kynslóða í góðu horfi.