150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

310. mál
[16:00]
Horfa

Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í orðum hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés að hann vildi einfalda regluverk virkjana, sló kannski svolítið úr og í, en það er í engu að ég sé að leggja fram þessa tillögu til þess að gera lítið úr umhverfisáhrifum eða að ekki verði farið eftir fyllstu reglum hvað það varðar. Það að einfalda regluverkið segir ekkert um að ekki eigi að fara eftir reglunum þegar þær eru settar. En það má alveg einfalda það og sérstaklega í þeim flokki. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort lög um umhverfisáhrif séu ekki nógu skýr sem segja til um þessa flokka, A, B og C, flokkað eftir mismunandi stærð. Skipulagsstofnun skal meta hvort það þurfi umhverfismat vegna virkjana, hvort það sé ekki nægilega skýrt. Þegar sett er upp virkjun sem er í C-flokki þá heyrir hún undir sveitarfélögin. Þarf ekki að skýra og einfalda regluverk um minni virkjunarkosti og erum við ekki sammála um að það sé ástæða til að einfalda og skýra þessar reglur en fara eftir þeim að fullu?