150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[16:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að tillagan felur í sér ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er það sem ég gagnrýni vegna þess að það er hægt að gera hana bindandi. Ég ætla að lýsa í ræðu á eftir hvernig hægt er að gera hana bindandi en það er með því að gera þingsályktunartillögu um að ráðherra sé falið að endursemja við Reykjavíkurborg um lengri veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni og að þingsályktunartillagan taki gildi við samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er breytingartillagan sem ég hyggst leggja fram og kannski ræði ég hana betur efnislega við hv. þingmann utan pontu.

Aftur á móti snýst þetta mál í mínum huga ekki um það í sjálfu sér hvort Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera þar sem hann er eða ekki. Ég lít á þetta mál sem spurningu um beint lýðræði og um það hver eigi að taka ákvarðanirnar. Ég er á því að sá eigi að taka ákvörðunina sem verður fyrir henni almennt. Við skiptum því niður þannig að við ákveðum öll saman hagsmuni okkar allra og hver einstaklingur í grunninn sína eigin hagsmuni.

Við höfum sögu af ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslum. Hún er sú að yfirvöld einfaldlega hunsa þær og þess vegna ræð ég það af svari hv. þingmanns að ekkert gerist við samþykkt þessarar þingsályktunartillögu og það að kjósendur svari að meiri hluta með jái. Ég held að ekkert gerist, að ekki neitt breytist, vegna þess að það er ekkert formlegt ferli sem tekur við af henni. Ef við trúum á beint lýðræði, ef við trúum því að svona þingsályktunartillögur eigi að hafa einhverja þýðingu, þurfum við stjórnarskrárbreytingu eða í það minnsta að búa þannig um málið að það taki gildi eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar er hætt við því að þegar stjórnmálamenn ákveða upp á eigin spýtur hvað fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvaða niðurstöður eigi að virða og hverjar ekki sé einfaldlega ekkert farið eftir niðurstöðunni.

Undantekning er ef maður er Pírati. Ég vek athygli á því að í stefnu okkar kemur fram að ef 10% kjósenda mótmæla máli munum við leggja fram breytingartillögu um að það verði bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla um það mál. Við vorum búin að undirbúa breytingartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu við þriðja orkupakkann gegn minni persónulegu sannfæringu ef svo færi að flokkurinn hefði greitt atkvæði með því eða ef 10% kjósenda myndu kalla eftir henni. Að mínu viti er bara einn flokkur á Íslandi sem (Forseti hringir.) raunverulega virðir niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna og kallar eftir því. Ég vek athygli á því vegna þess að þessi þingsályktunartillaga í þessum búningi ber engin slík merki.