150. löggjafarþing — 65. fundur,  3. mars 2020.

viðskiptasamningur við Breta.

[13:53]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr um mál sem er mikilvægt, sem er framtíðarsamband okkar við Breta. Eins og hv. þingmaður veit höfum við lagt mikla áherslu á það og það hefur verið forgangsmál. Við komum t.d. haustið 2017 með sérstaka skýrslu um stöðu okkar gagnvart Bretum og hvar við þyrftum að gæta hagsmuna okkar. Það má gera ráð fyrir því að á næstunni hefjist fríverslunarviðræður við Breta en við höfum verið í stöðugum samskiptum við bresk stjórnvöld, sömuleiðis EFTA-ríkin öll, þar með talið Noreg, og átt gott samstarf við þau.

Af því að hv. þingmaður spyr sérstaklega um samstarf við norsk stjórnvöld þá höfum við átt gott samstarf við norsk stjórnvöld í tengslum við útgöngu Breta eins og önnur EFTA-ríki og sömuleiðis haft samskipti við Evrópusambandið því að hér er um að ræða flókið mál. Og af því að hv. þingmaður nefnir EES líka þá tengist það því. Bretar ganga ekki bara úr Evrópusambandinu heldur líka úr EES. Það er því í mörg horn að líta þegar að þessu kemur.

Sumt í samskiptum Íslands og Bretlands heyrir ekki undir EES-samninginn en mjög margt gerir það. Síðan geta menn haft einhver sjónarmið uppi um það hvort EES hamlar okkur með einhverjum hætti. Samskipti okkar í þessu hafa að stærstum hluta verið, og sérstaklega á viðskiptasviðinu, í gegnum EES-samninginn og það hefur reynst okkur einstaklega vel. Við viljum halda því viðskiptasambandi áfram og til þess er leikurinn gerður. En ekki er eingöngu um viðskiptasamband að ræða heldur eigum við samskipti við Breta á ýmsum öðrum sviðum.