150. löggjafarþing — 65. fundur,  3. mars 2020.

svör við fyrirspurnum.

[14:27]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar er talað um gagnsæi í stjórnsýslunni. Þegar við þingmenn erum að beita ekki bara gagnsæi heldur gagnsæi í þeim tilgangi að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu, sem er stjórnarskrárbundinn réttur okkar, á að sjálfsögðu að gera eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði. Ef það er einhver skortur á þessu gagnsæi, ef það er einhver skortur á því að við getum sinnt þessu eftirlitshlutverki okkar, á að sjálfsögðu að setja meira fjármagn í að bæta innviðina til að auka gagnsæi til að auka eftirlit með framkvæmdarvaldinu.

Nýju upplýsingalögin sem hæstv. forsætisráðherra lagði fram gerðu gagnsæi aðeins hærra undir höfði. Mér finnst mjög áhugavert að heyra hæstv. forseta Alþingis róa í hina áttina og tala um að lengja tímann sem við höfum til að fá upplýsingar í krafti eftirlitshlutverks okkar. Það er mjög áhugavert. Það er ekki í samræmi við stjórnarsáttmálann, ekki í samræmi við góða stjórnsýslu og ekki í samræmi við gagnsæi. (Forseti hringir.) Ég vona að forseti taki þessi orð til greina og svari þessu.