150. löggjafarþing — 65. fundur,  3. mars 2020.

svör við fyrirspurnum.

[14:48]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég mun sennilega seint hætta að undrast hvernig umræða getur á örskammri stundu undið upp á sig. Hér er eðlilega kvartað yfir því að svör komi seint frá ráðherrum sem ég held að þingheimur allur hafi sameinast um og forseti tekur undir. Þá lýsir forseti því hvaða vinna og hvaða umræða hefur verið í gangi án þess að nokkrar ákvarðanir hafi verið teknar í hugmyndum um að breyta þingsköpum og allt í einu er farið að tala um litla einræðisherra og að hann sé ekki forseti alls Alþingis.

Ég er einfaldur maður, eins og margoft hefur komið fram, en ég held að við eigum öll að bera ábyrgð á því sem við segjum. Fyrir þau sem telja að forseti Alþingis hafi ekki gert neitt til að liðka fyrir stjórnarandstöðunni má kannski hugsa til þess að við vorum rétt áðan í lengdum óundirbúnum fyrirspurnatíma sem forseti kom á til að stjórnarandstaðan sérstaklega kæmist að. Menn geta hlegið að því (Gripið fram í.) ef þeir eru þannig gerðir en engu að síður er það þannig, hv. þm. Logi Einarsson, að fyrirspurnatíminn var lengdur til að allir fulltrúar stjórnarandstöðunnar kæmust að. (Gripið fram í.)