150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[15:28]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því svo sem ef nefndin tekur þetta mál aftur inn á milli 2. og 3. umr. og kannski er fullt tilefni til þess. En mig langar að velta þeirri spurningu upp í ljósi ágætra umsagna sem bárust um málið, sem voru fjölmargar, hvort hv. framsögumaður gæti kannski svarað því hvort í umfjöllun nefndarinnar um málið hafi eðli þjóðlendna verið eitthvað til umfjöllunar. Það er alveg ljóst að með þeirri breytingu sem gerð er hér, og hv. framsögumaður vísar til laga um opinber fjármál, mætti ætla að ekki væri einungis verið að breyta fyrirkomulagi um gjaldtöku í fjármálum þjóðlendna, heldur væri líka verið að gera breytingar á eignarformi þjóðlendna. Það var ljóst með tilgangi laganna upphaflega að á því var byggt að þjóðlendur væru ekki eins og hefðbundnar ríkiseigur heldur væri tekjum af þjóðlendum varið til landnota og eftirlits og einhverra verkefna á þjóðlendunum sjálfum en þær rynnu ekki í ríkiskassann. En með þessari breytingu mætti ætla að verið væri að breyta eðli þjóðlendna að því leyti að um þær fari eins og um aðrar ríkiseigur. Og nú skal ég svo sem ekki fullyrða hvort það hefði ekki verið hægt að óbreyttu, en ég velti fyrir mér hvort nefndin hafi fjallað um þetta sérstaklega.