150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[16:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Hv. þingmaður spurði hvort ég væri þeirrar skoðunar að bændur ættu í raun allt land, það væri ekki til neitt sem heitir þjóðlenda. Það sem ég átti við í þessu máli er það að bændum var talin trú um það, þegar lagt var í þessa vegferð á sínum tíma, að verið væri að skýra óvissu. Bændur hafa verið hlynntir því að skýra óvissu, en þeim var líka sagt að þetta yrði þeim að kostnaðarlausu. Og hvað gerist síðan? Ríkisvaldið kemur fram með ýtrustu kröfur og margfalt stærri og meiri kröfur en menn áttu von á í upphafi, fer í þá vegferð. Þá þurfa bændur að grípa til varna með tilheyrandi kostnaði o.s.frv. sem þeim var lofað, eins og ég sagði áðan, að þeir fengju endurgreiddan. Þeir fengu það að litlu leyti og eiga margir hverjir töluverðar upphæðir útistandandi hvað það varðar. Svo að það komi skýrt fram var þessi vegferð allt önnur en bændum var gert ljóst í upphafi og er rétt að halda því til haga, hv. þingmaður.

Að öðru leyti tel ég að verið sé að opna fyrir það með frumvarpinu að halda þessu áfram; þegar menn voru loksins komnir á þá skoðun að þetta færi að taka enda og ákveðin ró væri komin yfir, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi réttilega. En mér skilst að stefnan sé á þann veg að verið sé að efna til ófriðar hvað þetta varðar vegna þess að ljóst er að það á greinilega að halda þessu máli áfram. Það á að fara að snúa sér að sjávarjörðunum sem menn áttu alls ekki von á og þar er verið að miða við skýringar sem standast engan veginn og eru á skjön við (Forseti hringir.) Jónsbók o.s.frv. Það er bara margt í þessari vegferð sem er algerlega óforsvaranlegt að mínu mati.