150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

jafnt atkvæðavægi.

[15:57]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir þessa umræðu og forsætisráðherra fyrir að taka þátt í henni. Ég held að við séum hérna að tala um grundvöll lýðræðisins. Ég get ekki verið meira ósammála Bergþóri Ólasyni, þingmanni Miðflokksins, sem ræddi um þetta.

Hvað er lýðræði? Hvað er jafnvægi og hvað jafnrétti? Ef við ætlum að hafa lýðræði, jafnrétti og jafnvægi verðum við að byrja hér. Ég held að þetta sé nefnilega einmitt meinið. Þess vegna erum við ekki komin lengra í jafnrétti kynjanna og jafnrétti í þjóðfélaginu. Við erum enn með ójafnréttið sem virkar í stjórnarskránni. Er það eðlilegt að í mínu kjördæmi, Suðvesturkjördæmi, 70.000 manna kjördæmi, séu alltaf tveir fyrir hvern einn í öðru kjördæmi? Þetta getur ekki staðist. Þetta á ekki að vera svona og þetta er ekkert lýðræði. Það er ekkert jafnræði í þessu.

Þar af leiðandi verðum við líka að spyrja þegar verið er að tala um 5%-regluna, að 5% fylgi þurfi til að komast á þing: Hvað erum við þá að tala um mörg dauð atkvæði í Suðvesturkjördæmi eða um landið í heild sinni? Við erum alltaf að búa til eitthvert kerfi sem veldur ójafnrétti. Þetta þyrftum við helst að klára strax. Við segjumst vera lýðræðisþjóð og við berjum okkur á brjóst og segjum: Já, já, við ætlum að hafa jafnrétti, við ætlum að vera með jafnræði og við ætlum að sjá til þess að allir séu jafnir fyrir lögum í þessu landi, en við gerum það ekki. Við byrjum ekki hér. Hér eigum við að byrja og sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að við séum lýðræðisríki og að allir séu jafnir.