150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

jafnt atkvæðavægi.

[16:01]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í því fulltrúalýðræði sem við búum við er mikilvægt að valdið sé nálægt fólkinu og að kjósendur upplifi að fulltrúar þeirra á þingi og í sveitarstjórnum ræði þau málefni sem brenna á kjósendum hvar sem þeir búa og vinni að framgangi þeirra. Jafnframt verða kjósendur að finna fyrir því að kosningakerfið sé sanngjarnt og að ólík sjónarmið úr ólíkum áttum fái pláss í umræðunni. Engin kerfi sem maðurinn hefur skapað eru fullkomin. Við ættum því ávallt að þora að taka umræðuna um hvernig við getum betrumbætt þau og þróað áfram. Þannig verða framfarir og tel ég að framfarir sem ætlað er að efla lýðræðið og grunnstoðir þess séu sérstaklega mikilvægar.

Staðan hér á landi er sú að við búum í bæði fámennu og strjálbýlu landi. Annars vegar býr mikill meiri hluti landsmanna á höfuðborgarsvæðinu og í nærliggjandi sveitarfélögum sem er tiltölulega lítið og þéttbýlt landsvæði í hinu íslenska samhengi. Hins vegar býr minni hluti landsmanna á víð og dreif um mjög stórt og mjög dreifbýlt landsvæði. Þannig erum við með þrjú kjördæmi á stórhöfuðborgarsvæðinu sem eru með meiri hluta þingmanna og þrjú landsbyggðarkjördæmi sem ná öll yfir gríðarlega stór landsvæði og innihalda fjölbreyttar byggðir og byggðaform. Óneitanlega má segja að aðstæðurnar séu nokkuð ýktar þegar við tökum tillit til lykilþátta í þessari umræðu, fámenni, stærð landsins og strjálbýli en jafnframt það háa hlutfall landsmanna sem hefur kosið að búa á suðvesturhorninu. Er kjördæmakerfinu sem nú er við lýði þannig ætlað að skapa ákveðið samhengi milli fjölda kjósenda og fjölda þingmanna en einnig að tryggja að raddir úr ólíkum áttum af landsbyggðinni heyrist í umræðunni. Að mínu mati var t.d. kosningin í stjórnlagaþingi áminning um að gæta þurfi að jafnvægi milli landshluta alveg sama hvaða aðferðir við notum. Í Washington hafa þeir ekki þingmenn og það er líklega út af einhverju. Áskorun stjórnmálanna og samfélagsins alls er að halda áfram að þróa fulltrúalýðræðið og rökræða nýjar og ferskar hugmyndir til að bæta það. Samtímis verðum við að taka tillit til þeirra sérstöku aðstæðna sem við búum við hér á þessu litla landi.