150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

jafnt atkvæðavægi.

[16:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka öllum sem tóku þátt í umræðunni fyrir um margt áhugaverð sjónarmið. Því miður mun mér ekki endast tíminn til að fjalla nógu ítarlega um þetta mál hér í annað sinn frekar en venjulega þegar kemur að sérstökum umræðum. Ég er búinn að kvarta undan því áður.

Ég vil nefna nokkur atriði. Í fyrsta lagi verð ég að segja að ég get ekki fallist á að tvöfalt atkvæðavægi sé eðlilegt eða í lagi. Mér finnst það eiginlega ekki koma til greina. 60% finnst mér allt of mikið líka. Auðvitað viljum við hafa það jafnt og ég á mjög erfitt með sjónarmið sem gefa eitthvað annað í skyn. Mér finnst þetta augljóst en það er svo sem hægt að rífast um það vegna þess að það er kannski grunnhugmynd.

Afstaða okkar til þessa máls finnst mér ekki mega ganga út frá því hvort kjördæmi okkar verði svona eða hinsegin eða flokkurinn okkar hagnist eða tapi á því. Mér finnst það ekki vera rétt leiðsögn. Þetta snýst um meira grundvallaratriði. Að sama skapi megum við ekki gleyma hinu grundvallaratriðinu. Þetta snýst ekki bara um atkvæðavægið, þetta snýst um það hvers vegna sumir tali fyrir því að þetta misvægi sé í lagi. Það er vegna þess að það er ekki jafnrétti alls staðar um landið eftir því hvar fólk býr. Við verðum að bera virðingu fyrir því sjálf. Ég benti t.d. á að ekki sé sama aðgengi að stjórnvöldum á landsbyggðinni eins og í Reykjavík. Það er rétt. Getum við gert eitthvað í þessu? Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir fór út í þetta og sömuleiðis hv. þm. Bergþór Ólason. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fór aðeins út í fjárhagslegt sjálfstæði og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson nefndi skatta í þessu samhengi. Er eitthvað fráleit hugmynd að hafa skattafslátt sums staðar af einhverjum málefnalegum ástæðum? Það getur varðað fjárhagslegt sjálfstæði, t.d. að virðisaukaskatturinn renni til sveitarfélaga, a.m.k. að hluta. Þetta eru allt hugmyndir sem er hægt að ræða til að koma til móts við áhyggjurnar sem valda því að fólk aðhyllist misvægi atkvæða.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti, enda hef ég ekki tíma en ég þakka enn og aftur fyrir umræðuna. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Bergþór Ólason sagði, við eigum að ræða þetta í stærra samhengi og þakka ég honum fyrir innlegg hans og öllum öðrum sem tóku hér til máls.