150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

Almannavarnir.

[17:10]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Í mínum huga snúast almannavarnir ekki endilega um hvar þær eru staðsettar í stjórnkerfinu heldur að stjórnvöld forgangsraði þeim og tryggi stöðu þeirra í stjórnkerfinu. Almannavarnir snúast ekki um einstakar aðgerðir á einstökum vettvöngum heldur eru samfélagslegt verkefni. Þær snúast um stefnumótun til að tryggja almannavarnir. Hún getur verið víðfeðm eins og ég nefndi áðan hvað varðar raforku- og fjarskiptaöryggi. Þær snúast um aðgerðir á vettvangi þegar eitthvað kemur upp á og þær snúast líka um eftirmálin, að nálgast til að mynda samfélög sem hafa orðið fyrir áföllum í kjölfar slíkra áfalla og styðja við þau og veita þá hjálp og þann stuðning sem þarf. Það er stóra verkefnið og að því koma öll ráðuneyti alveg óháð því hvar stofnanir eru staðsettar.

Eins og ég sagði í minni fyrri ræðu tel ég mikilvægt að við skoðum sérstaklega hlutverk þjóðaröryggisráðs í samhengi við almannavarnir og tryggjum þessa nálgun. Ég vil til að mynda greina þingheimi frá því að ég sótti fund í samhæfingarmiðstöð í þessari viku vegna kórónuveirunnar og varð einmitt vitni að því hvernig allir þeir aðilar sem þar koma að málum, hvort sem það er lögreglan, heilbrigðisstarfsfólk, Rauði krossinn og svo mætti lengi telja, upplýsingafulltrúar ráðuneyta og fleiri, koma saman og starfa sem ein heild í því stóra verkefni að takast á við þessa vá. Það er það hugarfar sem við þurfum að hafa að leiðarljósi í allri þeirri vinnu sem við viljum setja í almannavarnir. Ég held að það skipti miklu máli að vinnu við nýja stefnu í almannavarna- og öryggismálum verði lokið fyrst og forgangsverkefni skilgreint.

Hér var rætt um rannsóknarnefnd almannavarna sem var kosin af Alþingi samkvæmt lögum um almannavarnir frá árinu 2008, en hún tók aldrei til starfa og var ekki fjármögnuð. Hún hefur núna tekið til starfa, henni hefur verið fundið húsnæði. Mér er kunnugt um að þar er ekki enn allur búnaður til staðar en þetta sýnir hins vegar vilja (Forseti hringir.) núverandi ríkisstjórnar til að forgangsraða þessum málum, setja fram skýra stefnu, horfa til nýrra áskorana, forgangsraða þessum málaflokki sem skiptir okkur öll máli því að þetta er risastórt samfélagslegt verkefni.

Ég þakka fyrir umræðuna. Lifið heil. [Hlátur í þingsal.]