150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

tollalög.

609. mál
[17:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á tollalögum. Í þessu frumvarpi eru lagðar til fjórþættar breytingar á lögunum.

Í fyrsta lagi er lagt til að hámarksþyngd matvæla sem ferðamenn og farmenn mega hafa meðferðis til landsins eða kaupa í tollfrjálsri verslun verði í ákvæði tollalaga hækkuð úr þremur kílóum í tíu.

Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að tollafgreiðslugengi taki mið af vikugengi í stað daggengis. Upptaka vikugengis mun flýta fyrir tollafgreiðslu sendinga og koma í veg fyrir tafir á afgreiðslu þegar sendingar eru tilbúnar til afgreiðslu áður en kemur að greiðsludegi. Þá mun upptaka vikugengis einnig auðvelda hraðsendingarfyrirtækjum að áætla aðflutningsgjöld fyrir viðskiptavini sína.

Í þriðja lagi er með frumvarpinu stefnt að því að tollafgreiðsla verði nánast alfarið stafræn en þó er einstaklingum og öðrum sem ekki eru í atvinnurekstri heimilað að skila allt að 12 skriflegum aðflutningsskýrslum á hverju ári.

Í fjórða og síðasta lagi er lagt til að bætt verði við tollalögin ákvæði þess efnis að þegar áfengi er selt í tollfrjálsri verslun af aðila sem er í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja í þeirra eigu skuli gæta jafnræðis við val á vöru og ákvörðun um sölu áfengis.

Með þessari tillögu er brugðist við áminningarbréfi Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, þar sem stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að með því að heimila Fríhöfninni ehf. smásölu á áfengi án þess að tryggja með gagnsæjum hætti jafnræði milli heildsala við vöruval og markaðssetningu væri brotið gegn ákvæði EES-samningsins um ríkiseinkasölu.

Þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til munu ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs samanlagt verði frumvarpið óbreytt að lögum. Frumvarpið miðar einkum að því markmiði að auka skilvirkni tollframkvæmdar.

Virðulegur forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari.