150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[17:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í inngangi greinargerðar með frumvarpinu er það tekið fram að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um stuðning stjórnvalda við lífskjarasamninga Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og Landssambands íslenskra verslunarmanna, sem undirritaðir voru í apríl 2019, kom fram að samkeppnislög yrðu tekin til skoðunar með það að markmiði að einfalda framkvæmd þeirra og auka skilvirkni. Síðan er tínt til í greinargerðinni hvað þarna eigi helst að leggja áherslu á. Ég skil þetta þannig að það sé a.m.k. verið að gefa í skyn að einhvers konar samkomulag sé á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda að fara í þær breytingar sem hæstv. ráðherra var að lýsa hér áðan og koma fram í frumvarpinu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé réttur skilningur hjá mér að frumvarpið sé í rauninni partur af lífskjarasamningunum og framkvæmd þeirra, eins og mér finnst vera gefið í skyn í inngangi greinargerðarinnar. Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra þeirrar einföldu spurningar.