150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[18:34]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á þeirri gullnu setningu allra þingmanna að segja: Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt frekar, en taka samt til máls. Ég ætla fyrst og fremst að fagna framlagningu þessa frumvarps og þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hennar áðan. Í ljósi ræðu hv. þm. Brynjars Níelssonar hlakka ég líka mjög mikið til umfjöllunar um þetta mál í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þar sem við munum að sjálfsögðu fara ítarlega yfir það.

Ég tek auðvitað undir þau orð hæstv. ráðherra að öflugt og gott samkeppniseftirlit sé gríðarlega mikilvægt öllu atvinnulífi. Ég hygg að það frumvarp sem við erum með í höndunum leiði til þess. Við munum fara yfir þær athugasemdir sem fram koma. En mér finnst nú engu að síður hálfhjákátlegt að við séum að ræða frumvarp til laga um breytingar á samkeppnislögum — jæja, þá mætir hv. þingmaður Miðflokksins í salinn. Ég ætlaði nefnilega að segja að áðan … (Gripið fram í: Sætir tíðindum.) Það sætir nefnilega tíðindum, hv. þingmaður, því að áðan vorum við að ræða frumvarp til laga um einföldun regluverks og þá flutti einmitt hv. þingmaður Miðflokksins ræðu og sagði þetta bara vera sýndarmennsku. Hvenær værum við að ræða alvörumál eins og samkeppnislögin? Þau eru hér þannig að ég er ánægð að sjá hv. þingmenn Miðflokksins sem væntanlega ætla að koma hér og halda eldræðu um þetta ágæta frumvarp sem liggur fyrir.

Það var aðeins verið að ræða hér um samráðsgáttina áðan. Það eru greinilega mismunandi skoðanir uppi hjá þingmönnum um ágæti hennar. Ég fagna samráðsgáttinni. Ég held að hún sé mikilvægt tæki fyrir stjórnvöld til að auka gagnsæi og sýna það sem þar liggur fyrir. Og þrátt fyrir að það breyti aðeins taktinum hjá okkur þingmönnum held ég að þetta sé til mikilla bóta. Það er einmitt ágætt að geta flett upp í greinargerð frumvarpsins um þær athugasemdir sem fram hafa komið í samráðsgáttinni. En ég ítreka það, eins og fram hefur komið í máli held ég bæði ráðherra og þingmanna, að auðvitað kemur samráðsgáttin ekkert í staðinn fyrir þinglega meðferð. Ég geri ráð fyrir því að við þinglega meðferð munum við fá athugasemdir frá öllum þeim sem skiluðu inn umsögnum á samráðsgáttina og eflaust enn fleiri aðilum og fáum þá jafnvel í heimsókn og förum ítarlega og vel yfir þetta mál. Ég held að það kerfi sem búið er að setja á með samráðsgáttinni sé til mikilla bóta og ég segi það sama og ég sagði áðan, virðulegur forseti, að ég fagna svona frumvörpum frá hæstv. ríkisstjórn og megi þau vera sem flest sem eru til þess að einfalda og skýra regluverkið en á sama tíma að styrkja það auðvitað að við séum með öflugt og gott samkeppniseftirlit.