150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

heilbrigðisþjónusta.

597. mál
[19:02]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vildi með þessu frumvarpi leggja höfuðáherslu á aðalatriði málsins sem er að það komi stjórn yfir spítalann, að öll málefni spítalans séu ekki í höndum forstjóra og framkvæmdastjórnar eins og verið hefur án þess að slík framkvæmdastjórn hafi aðhald og stuðning af stjórn. Þess vegna er það svolítið með ráðum gert af minni hálfu að geirnegla ekki í frumvarpstextann nákvæmt fyrirkomulag á vali á stjórnarmönnum heldur er látið duga að gera almennar kröfur um þekkingu annars vegar á heilbrigðisvísindum og hins vegar á rekstri og slíkum þáttum. Ég leyfi mér að gera mér vonir um það að til að mynda í þingnefnd, m.a. í ljósi umsagna, á slíkum vettvangi, myndu kannski mótast nánar hugmyndir og tillögur um það nákvæmlega hvernig mætti afmarka betur val á stjórnarmönnum en hér er lagt upp. En ég vildi ekki að þetta mál snerist um það atriði heldur um það stóra atriði, sem ég tel mjög brýnt og nauðsynlegt, að stjórn komi yfir spítalann.