150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

bætt uppeldi, leið til forvarna og lýðheilsu.

[11:31]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka framsögumanni, hv. þm. Unu Maríu Óskarsdóttur, fyrir umræðuna. Hér er verið að ræða bætt uppeldi og lýðheilsu. Óneitanlega koma margar stórar spurningar upp í hugann þegar þetta er rætt en ég vil beina máli mínu að umhverfi, umönnun og uppeldi drengja sérstaklega. Fjölmargar rannsóknir og tölur liggja fyrir sem endurspegla líðan þeirra og benda til að þeir eigi margir erfitt uppdráttar umfram jafnaldra sína meðal stúlkna.

Skemmst er að minnast umræðu sem ég efndi til á þingi fyrir nokkru um stöðu drengja. Á umliðnum árum hefur orðið alláberandi neikvæð umræða í samfélaginu, oft fordómafull og á köflum hatursfull um karlkynið sem ungir drengir komast ekki hjá að verða varir við og er ekki uppbyggileg fyrir sálarlíf þeirra og sjálfsmynd. Þeir verða óneitanlega fyrir áhrifum af umræðunni. Væri ekki um verðugt rannsóknarefni að ræða í baráttunni við þann vanda sem við er að eiga, til að mynda í baráttu við eiturlyfjavandann, brottfall úr skólum og marga aðra slíka þætti sem öllum eru kunnir?

Við erum á einu máli um árangur hvað varðar heilsu þjóðarinnar á síðustu áratugum, herra forseti. Við leitumst við að gera betur og um það fjallar þessi umræða. Við megum ekki sofna á verðinum því að ógnirnar eru margar. Hugmyndir um auðveldara aðgengi að áfengi, aukið frjálsræði í auglýsingum um áfengi, frjálsræði hvað varðar aðgengi að ýmsum fíkniefnum sem nú eru ólögleg hér á landi eru ógnir sem við þurfum (Forseti hringir.) að halda vöku okkar gagnvart.