150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

bætt uppeldi, leið til forvarna og lýðheilsu.

[11:42]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Aldrei er of mikil áhersla lögð á lýðheilsu. Henni ætti að beina til allra aldurshópa og þó sérstaklega barna og ungmenna. Hér á landi hefur orðið vakning um heilsueflandi samfélög. Sveitarfélög vítt og breitt um landið hafa hugað að því sérstaklega. Sveitarfélagið Skagafjörður var formlega aðili að heilsueflandi samfélagi síðasta sumar og þá var það 28. sveitarfélagið sem gerðist aðili að því. Þegar farið er inn á vefsíðu sveitarfélagsins má sjá að það hefur staðið sig nokkuð vel í þessum efnum með fræðsluerindum í skólum og handa íbúum og haldið fræðsluerindi og tengda atburði. Með undirskrift samnings um heilsueflandi samfélag einsetja sveitarfélög sér að vinna markvisst lýðheilsustarf. Það segir sig sjálft að það er betra að búa í slíku samfélagi. Markmiðin ná inn í alla þjónustukjarna sveitarfélagsins frá leikskóla til starfs eldri borgara og aðrir hrífast með.

Virðulegi forseti. Í velferðarnefnd er þingsályktunartillaga sem hv. þm. Willum Þór Þórsson er 1. flutningsmaður að, tillaga um þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það verkefni að útfæra stefnu og aðgerðaáætlun um þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum. Hún er útfærð í nokkrum liðum og í niðurlagi greinargerðarinnar segir, með leyfi forseta:

„Forvarnir þurfa að ná til allra þátta samfélagsins er varða heilsu og líðan allra aldurshópa. Nauðsynlegt er að efla það lýðheilsustarf sem fer fram á vegum landlæknis með auknum fjárheimildum til málaflokksins, svo sem til rannsókna, þróunar og eflingar lýðheilsusjóðs. Leggja þarf meiri áherslu á forvarnir á sviði lýðheilsu með samvinnu og stuðningi heilbrigðiskerfisins og vinna markvisst eftir settri lýðheilsustefnu. Aukin framlög hins opinbera til forvarna eru mikilvæg til lengri tíma litið svo að hægt sé að vinna að því að auka jafnvægi í útgjöldum til heilbrigðismála í framtíðinni.“

Ég segi því: Áfram með lýðheilsuna og takk fyrir umræðuna.