150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

íslensk landshöfuðlén.

612. mál
[12:57]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi fyrri vangaveltur hv. þingmanns um fyrirtækið sem rekur þessa skráningarstofu á Íslandi er rétt að það eru nokkrir aðilar sem koma að því. Ríkið og tengdir aðilar eiga til að mynda um 23,8% hlutafjár í fyrirtækinu. Mín skoðun er að bæði sé eðlilegt og skynsamlegt að fyrirtæki sem þetta sé í almannaeigu en ekki einkaeign. Það er mjög mikilvægt að það sé tryggt að starfsemin verði innan íslenskrar lögsögu þegar fjallað er einmitt um .is, bara vegna augljósra hugrenningatengsla. Það má benda á að á í Danmörku, Noregi og Svíþjóð eru sambærileg fyrirtæki rekin sem sjálfseignarstofnanir, jafnvel án hagnaðar, sem ég held að sé líka áhugavert form. Það var ekki valið og þetta frumvarp tekur svolítið utan um það hvað þarf að gera. Hér er lögð áhersla á öryggi. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að í einstaka tilvikum, 10. og 11. gr., getur verið um að ræða mjög íþyngjandi inngrip í starfsemi fyrirtækja. Þess vegna er það ávallt að undangengnum dómsúrskurði og ég get ekki ímyndað mér að heimild fengist til að læsa, loka eða eitthvað slíkt á grundvelli léttvægra brota því að þá yrði að fjalla um það hjá dómstólum áður. Þetta er ekki ákvörðun þeirra sem rannsaka mál, þeir verða að fá dómsvaldið með sér í slíka vegferð. Væntanlega getur það verið tekið fyrir hjá almennum dómstólum sé ágreiningur um slíkt.