150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 237/2019 og nr. 305/2019 um breytingar á IX. viðauka við EES-samninginn.

614. mál
[13:48]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd tvær ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar. Annars vegar er um að ræða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 237/2019, en með henni eru felldar inn í EES-samninginn þær sjö reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar sem tilgreindar eru í fyrri tölulið þingsályktunartillögunnar.

Hins vegar er um að ræða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 305/2019, en með henni er felld inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2399 frá 12. desember 2017 um breytingu á tilskipun 2014/59/ESB að því er varðar rétthæð ótryggðra skuldagerninga í réttindaröð við meðferð vegna ógjaldfærni.

Þær reglugerðir sem felldar eru inn í EES-samninginn með ákvörðun nr. 237/2019 eru allar afleiddar gerðir af tilskipun 2014/59/ESB sem setur ramma um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, BRRD. Sú tilskipun var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018. Fyrsti áfangi tilskipunarinnar var innleiddur með lögum nr. 54/2018 sem breyttu lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Þá hefur frumvarp til laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, þskj. 426, 361. mál, verið lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi til innleiðingar á meginefni tilskipunarinnar. Þar sem tilskipunin hefur enn ekki verið innleidd í heild hér á landi er ekki til staðar lagastoð fyrir innleiðingu afleiddu gerðanna og því var ákvörðun 237/2019 tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu.

Með reglugerðunum eru settar nánari reglur um endurbótaáætlanir, skilaáætlanir, niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga, aðferðafræði við gjaldtöku í svonefndan skilasjóð, en þar er um að ræða sérstakt fjármögnunarfyrirkomulag, og aðferðafræði við útreikning á nýrri kröfu um samsetningu eigin fjár sem nefnist lágmarkskrafa um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar. Tilskipunin sem felld er inn í EES-samninginn með ákvörðun 305/2019 kveður á um réttindaröð skuldagerninga við ógjaldfærnimeðferð. Tilskipunin breytir ákvæði 108. gr. í tilskipun 2014/59/ESB þar sem kveðið er á um mismunandi rétthæð krafna um innstæður við ógjaldfærnimeðferð og leggur til viðbætur við þá grein. Auk þess breytir tilskipunin skilgreiningu á skuldagerningum og leggur til reglur um mismunandi rétthæð ótryggðra skuldbindinga við ógjaldfærnimeðferð sem tekur mið af því hvort skuldbindingu megi rekja til skuldagernings sem uppfyllir tilgreind skilyrði.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.