150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:09]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er enginn vafi í mínum huga um að við göngum fram með góðu fordæmi þegar kemur að mannréttindamálum. Ég er búinn að eiga yfir 250 tvíhliða fundi og aldrei hefur einn einasti aðili komið til mín og sagt að við séum ekki að ganga fram með góðu fordæmi í mannréttindamálum. Aldrei. Það sem hv. þingmaður tilgreinir hér er ekki þess eðlis að það kalli á þá fullyrðingu að við séum ekki að ganga fram með góðu fordæmi. Þar sem hv. þingmaður hefur starfað á alþjóðavettvangi, hefur séð stöðu mannréttindamála í heiminum, finnst mér furðulegt að hún skuli leggja hlutina upp með þeim hætti sem hér er gert. Hvað er hv. þingmaður að segja? Er hv. þingmaður að segja að ef ástandið væri annars staðar í heiminum eins og það er á Íslandi væri það mjög bágborið þegar kemur að mannréttindum? Er hv. þingmaður að ýja að því?

Virðulegi forseti. Þetta stenst ekki nokkra einustu skoðun. Við getum alveg rætt um einstök mál eins og hér eru tilgreind, við eigum að gera það og munum gera það, en það stenst enga skoðun að leggja hlutina upp með þeim hætti að ósamræmi sé á milli þess hvað við gerum á vettvangi mannréttindaráðsins og hér heima. Svo mikið er víst að ef ástandið væri alls staðar í heiminum eins og á Íslandi þegar kemur að mannréttindum væri heimurinn miklu betri en hann er í dag.